Ítalska veislan

Við héldum ítalskt kvöld um helgina og buðum Keizaranum í mat ásamt fjölskyldu.  Við fengum okkur Bollinger Special Cuvée í fordrykk – einstaklega gott kampavín með ljúfum sítrus- og hnetukeim. Einkunn: 9,0 – Góð Kaup! Aðalrétturinn var Farsumagru – fyllt nautasteik frá Sikiley – sem tókst einstaklega vel.  Ég gerði líka ítalskt kartöflugratín sem var bara nokkuð gott.  Með þessu drukkum við fyrst Sette Ponti Crognolo 2007, sem er s.k. súper-Toscani, gert úr Sangiovese, Cabernet Sauvignon og Merlot.  Vínið er enn mjög ungt, óvenjumiklar fjólur í ilminum ásamt plómum, leðri og smá eik.  Mikil tannín og greinilegt sólberjabragð, góð fylling og gríðarlega langt og gott eftirbragð.  Frábært vín sem þarfnast samt smá tíma til að þroskast betur.  Einkunn: 9,0 – Bestu Meðmæli.

Vín kvöldsins - Crognolo, Bollinger, Ricasoli

Við opnuðum líka Castello di Brolio Barone Ricasoli Chianti Classico 2006 (sjá aðra umsögn) – annað frábært ítalskt vín til að toppa frábært kvöld.  Það eina sem ég var ekki nógu ánægður með var Tiramisúið mitt – það er alltaf of lint, sama hvað ég reyni.  Ég held að ég þurfi að leita ráða hjá Árdísi Brekkan…

Vinir á Facebook