Boom Boom Shiraz

Í gær fór ég með vinnufélögunum út að borða á veitingastaðnum Jay Foo hér í Uppsölum.  Þetta er nokkuð nýtískulegur staður sem býður upp á mat í fusion-stíl, skemmtilega innréttaður og sennilega sá staður í Uppsölum sem býður matargestum upp á besta útsýnið.  Vínlistinn þeirra er líka nokkuð sérstakur.  Hann er ekki langur, blanda af nýja og gamla heiminum, en vínin frá nýja heiminum hafa öll nokkuð sérstök heiti – Stump Jump frá d’Arenberg, Red Truck, og svo vínið sem ég smakkaði í gær – Boom Boom Shiraz frá Charles Smith í Washington.  Þetta er nokkuð skemmtilegt vín, óvenjumikill blómailmur fyrir shiraz, plómur og sólblóm ásamt sætum kryddkeim.  Nokkuð áberandi berjabragð, vægt piprað, dálítil tannín en skortir aðeins upp á sýruna.  Þokkalegt eftirbragð – Einkunn: 8,0 – Góð Kaup.

Það er nokkuð langt síðan ég tjáði mig síðast hér á Vínsíðunni en það hefur ekki verið mikill tími til vínsmökkunar að undanförnu.  Ég náði þó að prófa J. L. Chave Cote du Rhone Mon Coeur sem ég pantaði mér um daginn.  Það var mjög ungt og óþroskað, áberandi eikarkeimur og smá útihús.  Gekk vel með nautinu en má alveg bíða í 2-3 ár til viðbótar. 

Vínbúðin mín flutti yfir götuna fyrir u.þ.b. 1 mánuði og ég verð að viðurkenna að ég hef ekki enn komið þangað inn.  Keizarinn og Brekkan eru báðir á því að búðin hafi ekki batnað við flutninginn, hún sé þröng og óspennandi.  Ég skil svo sem ekki af hverju hún var að flytja fyrst hún var ekki betrumbætt, en ég geri mér grein fyrir því að frítt húsnæði í 5 ár er nokkuð góð ástæða (það er sögð vera aðalástæðan, enda mikilvægt fyrir eiganda verslunarmiðstöðvarinnar að lokka að viðskiptavinina).  Ég er í fríi um helgina og hver veit nema ég láti verða af því að kíkja inn…

Vinir á Facebook