Liseberg og tvö frábær vín!

Já, loksins komumst við í Liseberg! Dæturnar völdu nefnilega Liseberg sem sumarleyfisstaðinn í ár og tóku hann fram yfir sólarlandaferð eða annað þvíumlíkt. Við fórum reyndar til Íslands í 3 vikur en það er víst ekki hægt að kalla það sólarlandaferð þrátt fyrir að veðrið hafi verið með ágætum. Við ætluðum svo að fara í tjaldferðalag til Gautaborgar eftir heimkomuna frá Íslandi en urðum þá fyrir því að bíllinn bilaði og við komumst því hvorki lönd né strönd. Við skruppum reyndar í Gröna Lund en það fannst þeim ekki alveg sambærilegt (mig grunar reyndar helst að það hafi verið tjaldferðalagið sem var málið og Liseberg bara bónus!). Skólarnir eru svo að byrja í þessari viku (byrjuðu í gær) og úr því að við vorum í fríi þessa viku ákváðum við að slá tvær flugur í einu höggi og skreppa til Liseberg ásamt því að heimsækja vini okkar í Osló.
Eftir að hafa prófað bæði Gröna Lund og Liseberg erum við öll sammála um það að Liseberg ber höfuð og herðar yfir Gröna Lund!
Ferðin tókst mjög vel og við skemmtum okkur vel í góðra vina hóp.  Ég tók með mér sitt hvora flöskuna af vínunum sem ég pantaði um daginn – William Fevré Chablis 2008 og Lammershoek Red Roulette 2006.  Rauðvínið drukkum við með entrecote sem var grilluð á sunnudagskvöldið.  Þetta er alveg einstaklega gott vín, ávaxtaríkt með kirsuberjum, plómum og leðri mest áberandi í seiðandi angan.  Góð fylling í munni, mjúk tannín og hæfileg sýra.  Langt og gott eftirbragð.  Einkunn: 9,0 – Bestu Meðmæli.  Hvítvínið drukkum við svo á mánudeginum með sushi og það var einnig „match made in heaven“-dæmi, góður sítrusilmur með ögn af eik, perum og smjöri, frísklegt í munni með mjúkum eikartónum.  Sítrusinn áberandi í eftirbragðinu.  Einkunn: 9,0 – Bestu Meðmæli.
Réttast væri að panta meira hið fyrsta…

Vinir á Facebook