Slow food – part II

Já, kjötið fékk að malla í allan dag (kannski ekki hægt að segja að það hafi mallað því hitinn í pottinum komst aldrei að suðumarki) og það var þess virði, því það var mjúkt og gott og máltíðin mjög vel heppnuð.  Með þessu drukkum við Blue Pyrenees Cabernet Sauvignon 2006, sem er ástralskt vín og ansi gott!  Það er pínu ljóst miðað við að vera ástralsku Cabernet, unglegt að sjá með sæmilega dýpt.  Í nefið koma ber, krydd og amerísk eik ásamt vott af lakkrís, myntu og svörtum pipar.  Í munni er það nokkuð mjúkt, sæmileg tannín og sýra á móti þeim, fyllingin mætti vera meiri en eftirbragðið er þokkalegt.  Einkunn: 7,5.
Annars var matreiðslan á þessa leið:
Kjötið: Nautasteik (ég notaði högrev – lýsi eftir íslensku heiti á sama vöðva) skorið í hæfilega bita, sinar hreinsaðar, kjötið brúnað í smjöri við meðalhita.  1 gulrót, 1 laukur, 1 palsternacka (rótarávöxtur – lýsi eftir íslenska heitinu) skorið í bita (ekki mjög litla).  4 lítrar af vatni hitaðir að suðu og gulrónin, laukurinn og palsternackan sett út í ásamt 10 piparkornum og 5 lárviðarlaufum.  Kjötið sett út í, lok sett á pottinn og látið malla við lægsta hita í 8-10 tíma (hitinn í pottinum á að vera u.þ.b. 75 gráður – þetta á sem sagt ekki að sjóða!
Blómkálið: Hálfur blómkálshaus snyrtur og bútaður niður í litla stilka.  2 dl vatn, 1 dl hvítvínsedik og 1 dl sykur hitað að suðu með 5 lárviðarlaufum.  Hellt yfir blómkálið og látið kólna/liggja.
Þegar kjötið hefur fengið að malla er það tekið úr pottinum og bitunum vafið inn í plastfilmu til að tapa ekki safanum.  Hér er allt í lagi þó kjötið kólni, og má jafnvel geyma í 1-2 klst.  Kjötsoðið hitað að suðu og soðið niður þar 1 líter er eftir, þá er grænmetið sigtað frá.
Rauðvínssósa: 1 dl balsamedik og 1-2 msk sykur soðið niður í sýróp, 2 dl rauðvín og 5 dl kjötsoð bætt út í.  Látið sjóða í 5 mín, þykkt með maizenamjöli.
Á meðan sósan er löguð er kjötið sett út í afganginn af soðinu og látið malla við hægan hita í 10 mín (bara til að hita upp kjötið).
Borið fram með kartöflum, salati, súrsuðu blómkáli og sósu.  Létt shiraz eða cabernet sauvignon fer vel með þessum mat.
Fyrir þá sem vilja gera sama eftirrétt þá gerði ég súkkulaðifondantes (muffins með mjúkum kjarna), ávaxtakompott og bar fram með ís.
Súkkulaðifondantes: 150 g súkkulaði og 150 g smjör brætt saman.  Hrært saman við 3 egg, 3 eggjarauður, 2 dl sykur og 1 dl hveiti.  Sett í 8 lítil form (muffinsform eða önnur lítil form sem rúma u.þ.b. 1 dl) og bakað við 200 gráður í 12-14 mínútur.
Ávaxtakompott: 4 dl vatn og 1 dl sykur hitað að suðu.  1 kanelstöng og 1 vanillustöng sett út í og soðið í 3-4 mínútur.  Hellt yfir 250 g af þurrkuðum ávöxtum og látið kólna.
Drekkið með sætvíni (t.d. Tokaij) eða rommi.

Vinir á Facebook