Nammi namm!

Já, hryggurinn var algjört nammi og ekki var vínið síðra!  Hryggurinn var eldaður á gamla mátann og var meyr og mjúkur þegar hann kom út úr ofninum.  Meðlætið var klassísk rauðvínssósa, kartöflur og salat.  Með þessu drukkum við svo Beringer Cabernet Sauvignon Private Reserve 2004.  Þetta er alvöru amerískur cabernet-bolti eins og ég vil hafa þá.  Kraftmikið vín, hnausþykkur ilmur af amerískri eik (aðeins brenndur keimur, franska eikin meira eins og blautur viður), plómum og sólberjum.  Öflug tannín sem aðeins eru farin að mýkjast (víninu var umhellt u.þ.b. 1½ klst áður), mikil fylling og vínið feiknagott! Dásamlegt eftirbragð sem hefði þótt mátt vera aðeins lengra.  Einkunn: 9,0 – Góð Kaup! Hér erum við að tala um vín sem kostar aðeins 5.999 í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli (í brottfararverslun) og því tvímælalaust hægt að mæla með því við alla sem þar eiga leið um.  Sjálfur ætla ég að kippa einni eða tveimur flöskum með mér næst þegar ég fer þarna um (næstu jól/áramót).  Athugið að skv. Wine Spectator (sem gefur víninu 93 punkta) kostar þetta vín um 116 dollara í Ameríku, sem gera um 14.500 krónur, þannig að þetta er algjört brunaútsöluverð!

Vinir á Facebook