Bjórrannsóknir í hitabylgjunni

Sumarið er komið hér í Uppsala – það fer ekkert á milli mála.  Allir eru léttklæddir, hámandi í sig ís og drekkandi sódavatn.  Miðaldra kerlingar sitja fyrir utan Ríkið og bíða eftir að það opni svo þær geti farið inn og keypt sér hvítvín á 1-líters fernu fyrir 50 krónur.
Það er óhætt að segja að hitabylgja gangi hér yfir – glampandi sól og hitinn við það að gægjast yfir 30 gráður á hverjum degi.  Svo á víst að hlýna enn meira um helgina!  Á svona dögum leitar maður í svaladrykkina og ég ákvað því að stunda smá ölsmökkun ásamt Keizaranum.
Fyrst prófuðum við Harboe pilsner (10,50 SEK), danskt öl með 5,0% áfengismagn.  Ljósleitt, smá sítrusilmur, nokkuð beiskt en að öðru leyti ekki mjög bragðmikið.  Okkur fannst það þó vera fullbeiskt fyrir okkar smekk.
Bryggmästarens Premium Guld (12,90 SEK) er sænskt, 5,7% að styrkleika.  Ljósleitt, maltkeimur og vottar fyrir apríkósum í ilmnum.  Pínulítið gerbragð, maltkeimurinn skilar sér líka.  Sæmilegur bjór.
Arboga 5,6 (13,90 SEK) er einnig sænskt, 5,6% að styrkleika.  Það er bruggað skv. gamalli hefð og er sagt líkjast miðinum sem víkingar drukku á sínum tíma!?  Ekki veit ég hvort það er satt en ölið er samt í nokkru uppáhaldi hjá mér og Keizaranum.  Það er ljósleitt, dæmigerður „bjórilmur“ með smá brauð- og gerkeim.  Bragðið aðeins sætt með væga beiskju og góða fyllingu.  Mjög gott.
Norrlands guld export (13,50 SEK) er sænskt, 5,3% að styrkleika.  Það er auglýst sem bjórinn sem karlmenn í Norrland drekka (það eru svona skógarhöggsmenn og hörkutól sem segja aldrei meira en nauðsyn krefur og kalla ekki allt ömmu sína).  Það er ljósleitt, með örlítið sætan ilm, miðlungs beiskja, ágætis fylling og gott eftirbragð.
Útlit er fyrir frekari rannsóknir nú um helgina, því spáð er blíðviðri og hækkandi hita!
Í kvöld ætlum við að grilla humar og lambalæri.  Með því verða drukkin nokkur góð vín, sérvalin úr kælinum…

Vinir á Facebook