Júróvisjónvín?

Um þessar mundir eru forkeppnir fyrir Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva (júróvisjón) haldnar víða um Evrópu.  Íslendingar eru þegar búnir að velja sitt sorglega framlag (sem er kannski vel valið í ljósi þess að við höfum alls engin efni á að vinna í ár) og sirkusinn er að ná hámarki hér í Svíþjóð.  Um næstu helgi fer fram lokakeppnin þar sem mörg frambærileg lög berjast um sigurinn, og öll myndu þau auðveldlega skáka okkar framlagi.  Þegar úrslitakeppnir eru annars vegar hittast menn oft og horfa saman á keppnina, gjarnan að undangenginni sameiginlegri máltíð.  Ég tel að að máltíðin (og vínið) eigi að vera í anda keppninnar, þ.e. fallegt á yfirborðinu en ekki of mikið lagt undir.  Með þessu á maður því að taka fram eitthvað miðlungs gott vín sem ætti ekki að kosta mikið meira en 1300-1500 krónur (60-90 krónur í systeminu) – t.d. kassavín!
Við erum auðvitað í smá Evrópugír þegar við horfum á þetta og veljum því auðvitað evrópsk vín, þ.e.a.s. frönsk, ítölsk eða spænsk.

  • ÍtalíaRocca di Montemassi (ávaxtaríkt og kryddað sangiovese), Barone Ricasoli Formulae (sangiovese með meiri eikartóna, kryddað og ávaxtaríkt) eða Pasqua Primitivo (mikið berjabragð).
  • SpánnRaimat Abadia (krydduð CMT-blanda með eikar- og berjabragði ásamt ögn af kakó) eða Crin Rioja (Tempranillo – ungt og frísklegt)
  • FrakklandPellerin Côtes-du-Rhône (krydduð GSM-blanda, berjaríkt með fjólukeim), eða J P Chenet (Cab-Syrah með berja- og karamellukeim!).  Þeir sem eru virkilega inni í júróvisjón fá sér auðvitað Georges Duboeuf Beaujolais (Gamay með berja- og ávaxtahlaupsbragði!).

Keizarinn, sem er nýlega frelsaður inn í heim júródýrkenda, myndi að öllu jöfnu fá sér Rocca di Montemassi en nú þori ég ekki alveg að giska á hverju hann tekur upp á næst.  Ég er hins vegar að hugsa um að grilla um næstu helgi!

Vinir á Facebook