Hvar eru reynsluvínin?

Einu sinni var auðvelt að finna þau vín sem voru í reynslusölu hjá ÁTVR – þau voru talin upp á heimasíðunni.  Nú er auðvelt að finna vín sem passa með svínakjöti, austurlenskum  mat eða á sólpallinum, en hvar eru nýju vínin?  Hvar eru reynsluvínin?
Nú bý ég reyndar ekki lengur á Íslandi en ég vil samt fylgjast með því sem er að gerast þar.  Eftir nokkra leit á vinbudin.is fann ég Vínblaðið sem kemur út nokkrum sinnum á ári – þar eru ágætis greinar þó ég sé ósammála því að súkkulaði sé vín-óvinur líkt og haldið er fram í einni greininni.  Þar er líka að finna lista yfir öll vínin í vínbúðunum og einungis með því að fletta í gegnum allan þann lista er hægt að sjá hvaða vín eru í reynslusölu í Heiðrúnu og Kringlunni – önnur reynslusala virðist ekki vera fyrir hendi.  Áður fyrr voru vín í reynslusölu í mörgum vínbúðum en nú er það greinilega aðeins fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.  Ekki einu sinni Akureyringar komast í reynsluvínin án þess að þurfa að panta þau.
Þetta er auðvitað afleitt og það er miður að þjónusta vínbúðanna hafi versnað eftir að ég flutti út.
Reynsluvínin á vefinn, takk fyrir!

Vinir á Facebook