Allegrini La Grola 2005

Ágætis rauðvín frá Veróna-héraði á Ítalíu.  Allegrini er einn af stærri og betri framleiðendunum á þessu svæði og ég kynntist nokkrum af vínum Allegrini þegar fjölskylda mín var stödd við Garda-vatn í fyrra.  Í kvöld eldaði ég rifjasteik (uppskrift í Landsliðsbók Hagkaupa) og ákvað að fá mér La Grola 2005 með því.  Þetta er ekki dýrt vín, kostar um 150 SEK (mörgum þykir það þó í hærra lagi hér í Uppsölum).  2005 var mjög góður árgangur á Ítalíu og Veróna-svæðið er engin undantekning frá því.
Vínið er ennþá nokkuð ungt að sjá, ágætlega dökkt og fallegt í glasi.  Dálítil spíralykt kemur fyrst fram en svo finnur maður ber, pipar og smá súkkulaði – ekki mjög flókin lykt.  Vínið er nokkuð þurrt, nóg af tannínum og ágæt sýra – nokkuð gott jafnvægi.  Eftirbragðið nokkuð gott og í meðallagi langt.  Ágæt kaup.

Vinir á Facebook