Íslenskur bjór til Danmerkur

Íslendingar hafa löngum verið hrifnir af dönskum bjór og teygað hann í miklu magni.  Það hlýtur til því að teljast saga til næsta bæjar þegar íslenskur bjór er fluttur út til Danmerkur!
Nú hefur Ölvisholt Brugghús ehf. hafið útflutning á Skjálfta til Danmerkur.  Bjórinn mun fyrst um sinn verða fáanlegur í verslun Magasin du Nord og í verslunum Co-op undir nafninu Skælv, og mun í kjölfarið fara í dreifingu á landsvísu í Danmörku.
Þessi útflutningur er stórt skref fyrir Ölvisholt brugghús en ekki síður stórt skref í útflutningi íslendinga því þessi eini gámur sem fer núna í september 2008 er rúmlega 10% aukning á bjórútflutningi íslendinga. Ölvisholt brugghús mun á næsta ári bera höfuð og herðar yfir aðra bjórútflytjendur með 60-80% af útfluttum bjór íslendinga!
Ritstjóri Vínsíðunnar er síður en svo hissa á þessum fréttum, enda orðið vitni að þekkingu stjórnarformanns Ölvisholts Brugghúss á dönskum bjór á yngri árum!
Vínsíðan fagnar þessum merka áfanga og bíður nú þess að Skjálftinn verði fáanlegur í Svíþjóð (Skalv?).

Vinir á Facebook