Peter Lehmann Clancy’s Red 1999

Vín mánaðarins í ágúst 2001 er Clancy’s Red frá Peter Lehmann í Ástralíu. Þetta er margverðlaunað vín: fyrri árgangar hafa hlotið gullverðlaun hér og þar og síðustu tveir árgangar (1997 og 1998) enduðu báðir inni á topp-100 lista Wine Spectator yfir 100 bestu vín ársins, þar af var 1997 árgangurinn í 24. sæti árið 1999! Það er því sérlega ánægjuleg búbót að fá þetta eðalvín inn á borð til okkar, og verðið spillir ekki fyrir.
Þrúgurnar koma af vínekrunum í Barossa, Limestone Coast, Coonawarra og Clare. Blandan er nokkuð óvenjuleg: Shiraz 53%, Cabernet Sauvignon 29%, Merlot 10% og Cabernet Franc 7%. Vínið er geymt í 12 mánuði í tunnum úr franskri og amerískri eik áður en það er sett á flöskur.
Vínið er dökkt og djúpt, unglegt. Angan af berjum, eik, leðri og pipar. Tannískt, góð sýra. Góð fylling og langt og gott eftirbragð. Á eftir að batna verulega á næstu 5-10 árum. Hæfir öllu rauðu kjöti!
Einkunn: 8,0

Vinir á Facebook