Marani Rkatsiteli Traditional Qvevri 2019

Þrúgan Rkatisteli er ekki mjög þekkt utan Kákasus-landanna, en þar hefur hún hins vegar af ýmsum ástæðum verið vinsæl. Þrúgan er mjög kuldaþolin, sem kemur sér vel á köldum vetrum í Kákasus. Þá heldur hún vel í sýruna – jafnvel á heitustu sumrum – sem er mikilvægt því þarna getur orðið mjög heitt á sumrin. Þrúguna má svo nota í nær alla vínstíla – borðvín, freyðivín, sætvín, styrkt vín og brandý.

Venjuleg Rkatsiteli-vín eru yfirleitt frískleg en mild, með grænum eplum, perum og ferskjum. Vínin geta líkst Petit Chablis eða Pinot Grigio frá Norður-Ítalíu. Það á þó ekki við um vín sem gerð eru með Kvevri-aðferðinni.

Vín dagsins

Þrúgurnar í þetta vín eru handtíndar af vínviðnum, teknar af stilknum og síðan settar í Kvevri-ker til gerjunar. Gerjunin tekur um 3 vikur, en þá tekur við umbreyting eplasýru yfir í mjólkursýru (malolactic conversion). Kvevri-kerin eru þá fyllt, þeim lokað og vínið er látið liggja á hýðinu yfir veturinn. Að vori er vínið hreinsað og síað og fært yfir í stáltanka þar sem það er geymt í nokkra mánuði áður en það er að lokum sett á flöskur.

Marani Rkatsiteli Traditional Qvevri 2019 er með miðlungsdjúpan appelsínugulan lit, með appelsínubörk, apríkósur, cantaloupe-melónur, steinefni og gráfíkjur ásamt mildum hungangs-undirtónum og ögn af steinolíu. Í munni er vínið þurrt, með miðlungs sýru og létta fyllingu. Milt eftirbragð með appelsínuberki, apríkósum, melónum, ofþroskuðum rauðum eplum og fíkjum. Með þennan lit býst maður alltaf við að vínið sé sætt, sbr. Sauternes- og Tokaj-vín sem hafa svipaðan lit. Þetta vín er hins vegar skraufþurrt og með miklu minni sýru. 86 stig. Fer eflaust vel með ljósu fuglakjöti og léttum fiskréttum. 3.275 kr. Sýnishorn frá innflytjanda.

Ég fann engar umsagnir um þetta vín, en notendur Vivino gefa því 3,6 stjörnur (139 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Marani Rkatsiteli Traditional Qvevri 2019
Marani Rkatsiteli Traditional Qvevri 2019 fer eflaust vel með ljósu fuglakjöti og léttum fiskréttum.
3.5
87 stig

Vinir á Facebook