Ruffino Riserva Ducale Chianti Classico 2019

Vínhús Ruffino var stofnað árið 1877 af frændunum Ilario og Leopoldo Ruffino. Frændurnir höfðu greinilega hæfileika til víngerðar, því fljótlega voru vínin farin að vekja athygli og vinna til verðlauna á sýningum. Líkt og svo mörg önnur framgangsrík vínhús þá þótti ástæða til útrásar og frekari landvinninga hjá Ruffino. Það var þó ekki fyrr en eftir seinni heimsstyrjöldina sem þessi útrás hófst með kaupum á öðrum vínhúsum. Ruffino varð fyrsta vínhúsið til að eiga landareignir í Chianti Classico, Montepulciano og í Montalcino. Árið 2019 eignaðist Ruffino svo landareignir í Veneto og í dag ná vínekrur Ruffino yfir 600 hektara lands.

Constellation Brands keyptu hlut í Ruffino árið 2004 og eignuðust svo fyrirtækið að fullu árið 2011. Constellation eiga einnig vínhús Robert Mondavi, Schrader og Kim Crawford, svo nokkur séu nefnd, auk þess að eiga Corona bjórverksmiðjurnar.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá Chianti Classico í hjarta Toscana og hefur lengi verið eitt af flaggskipum Ruffino (það kom fyrst á markað árið 1927). Riserva-vín frá Chianti Classico þurfa að innihalda a.m.k. 80% Sangiovese, en afgangurinn má vera úr ýmsum öðrum þrúgum (ítölskum eða alþjóðlegum tegundum), í þessu tilviki 10% Merlot og 10% Cabernet Sauvignon. Vínin þurfa líka að hvíla í a.mk. 2 ár (þarf af a.m.k. 3 mánuði á flöskum) áður en þau fara í sölu. Þetta vín var fyrst 12 mánuði í steyptum tönkum, svo 12 mánuði í stórum eikartunnum og að lokum 3 mánuði í flöskum áður en það fór í sölu (þannig að þegar þessi færsla er skrifuð hefur það verið í um 16 mánuði í flöskunni).

Ruffino Riserva Ducale Chianti Classico 2019 er rúbínrautt á lit, með góða dýpt. Í nefi er nokkuð þétt angan af kirsuberjum, leðri, tóbaki, plómum, vanillu, hindberjum og anís. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungssýru, góð tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið heldur sér nokkuð vel og þar má finna kirsuber, leður, tóbak, eik, plómur, vanillu, stjörnuanís og negul. 91 stig. Góð kaup (3.999 kr). Fer vel með góðri steik, s.s. nauti, lambi eða villibráð, einnig með góðri skinku. Drekkið á næstu 3-5 árum. Sýnishorn frá innflytjanda.

Fékk gullverðlaun á Mundus Vini vínsýningunni í vor. Það fékk 89 stig og bronsverðlaun á Decanter World Wine Awards árið 2022. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,0 stjörnur (1.541 umsögn þegar þetta er skrifað).

Ruffino Riserva Ducale Chianti Classico 2019
Góð kaup
Ruffino Riserva Ducale Chianti Classico 2019 fer vel með góðri steik, s.s. nauti, lambi eða villibráð, einnig með góðri skinku.
4.5
91 stig

Vinir á Facebook