Kir Yianni Assyrtiko 2020

Saga víngerðar í Grikklandi er lengri en í flestum öðrum löndum þar sem víngerð er stunduð. Elstu minjar um víngerð í Grikklandi eru um 6.500 ára gamlar og líklega hefur vínrækt borist þaðan til annarra landa við Miðjarðarhaf. Grísk vín voru flutt út til annarra Evrópulanda og voru í hávegum höfð. Talið er að Grikkir hafi flutt vínvið til annarra Evrópulanda, m.a. Ítalíu, en Rómverjar voru síðar duglegir að breiða út vínrækt í nýlendum sínum.

Grikkland hefur heitt Miðjarðarhafsloftslag, þar sem sumur verða mjög heit. Vínrækt er því helst stunduð þar sem einhverrar kæliáhrifa gætir, t.d. vindar frá hafi, og upp til fjalla. Vindarnir geta verið mjög sterkir og jafnvel skemmt vínviðinn. Þess vegna er vínviðurinn sums staðar látinn vaxa líkt og karfa niðri við jörðina. Jarðvegurinn er víða næringarsnauður (sem er gott fyrir vínviðinn).  Vatnsskortur getur verið vandamál á grískum vínekrum, og stundum rignir ekkert yfir vaxtartímann.

Þekktustu vínin frá Grikklandi eru úr þrúgum sem þrífast við einstakar aðstæður – mjög heitt og mjög þurrt loftslag. Yfir 200 afbrigði af vínvið eru ræktuð á Grikklandi, og flest þeirra eru ekki ræktuð annars staðar. Þekktustu afbrigðin eru Xinomavro, Agiorgitiko og Assyrtiko.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá héraðinu Amyndeon í Makedóníu (Makedónía er í norðurhluta Grikklands og má auðvitað ekki rugla við landið Norður-Makedóníu). Amyndeon er kaldasta vínhérað Grikklands og vínekrurnar, sem eru nokkuð hátt yfir sjávarmáli (700 metrar), eru umluktar fjöllum. Þarna eru kjöraðstæður til vínræktar, þar sem jarðvegur er sendinn og næringarsnauður, sumrin heit en vetur svalur og úrkoma er nær eingöngu á veturna. Þarna eru einkum ræktaðar rauðar þrúgur á borð við Xinomavro og vín sem eru kennd við Amyndeon verða að vera hrein Xinomavro-vín. Önnur vín, þar á meðal hvítvín, eru því yfirleitt kennd við Florina eða Makedóníu, sem eru víðtækari skilgreiningar.

Þrúgan Assyrtiko er einkum ræktuð á grísku eyjunum, en henni bregður líka fyrir á vínekrum á meginlandi Grikklands, þar á meðal á vínekrum Kir Yianni. Vínviðurinn sem gefur af sér vín dagsins er um 6-8 ára gamall og uppskeran er um 40 hektólítrar á hektara. Þegar þrúgurnar eru komnar í hús eru þær kramdar og kældar, og safinn látinn liggja um stund á hýði til að ná sem mestu bragði í vínið. Að lokinni gerjun er það svo látið liggja í 4-5 mánuði á gerinu (sur lie) og fær þannig meiri fyllingu og dýpt.

Kir Yianni Assyrtiko 2020 er fölgult á lit, unglegt með nokkuð þéttan og aðeins smjörkenndan ilm af greipaldinum, sítrónu, sítrónuberki, grasi, fennel, ylliblómum, eplum, perum, nektarínum og apríkósum. Í munni er vínið þurrt og sýruríkt, með miðlungsfyllingu og nokkuð gott eftirbragð þar sem greipaldin, sítrónur, gras, fennel, perur, epli og nektarínur koma fram. 88 stig. Ágæt kaup (3.877 kr). Fer vel með sushi, skelfiski, salatréttum, fiskréttum og ljósu fuglakjöti, jafnvel kálfakjöti. Alls voru framleiddir um 6.000 kassar af þessu víni.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,6 stjörnur (492 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur víninu 87 stig og það gerir Wine Spectator einnig.

Kir Yianni Assyrtiko 2020
Ágæt kaup
Kir Yianni Assyrtiko 2020 fer vel með sushi, skelfiski, salatréttum, fiskréttum og ljósu fuglakjöti, jafnvel kálfakjöti.
4
88 stig

Vinir á Facebook