El Vinculo Crianza 2016

La Mancha héraðið á Spáni er stærsta skilgreinda vínhérað Evrópu. Vínviður er ræktaður á rúmlega 190.000 hektörum (til samanburðar þá ná allar vínekrur Ástralíu yfir 146.000 hektara). Héraðið nær yfir stóran hluta Meseta Central – hásléttunnar í hjarta Spánar. Þar ríkir heitt meginlandsloftslag – mjög heit sumur (hitinn fer oft yfir 40°C) og kaldur vetur. Hér er aldrei skortur á sólskini og þrúgurnar ná fullum þroska á hverju ári. Þurrkur er algengt vandamál, en kalkríkur jarðvegurinn heldur vel í þá úrkomu sem kemur (aðallega yfir vetrarmánuðina) og vínviðurinn þrífst því vel á þessum slóðum.

Víngerð á sér langa sögu í La Mancha, sögu sem nær aftur til tíma Rómverja. Rómverjar tóku nefnilega með sér vínvið hvert sem þeir fóru. La Mancha laut um tíma yfirráðum Mára og þeir kölluðu svæðið al-mansha, sem þýðir „sviðin jörð“ og er lýsandi fyrir svæðið.

Þarna þrífast best þrúgur sem þola mikinn hita og þurrk. Mest ræktaða hvíta þrúgan heitir Airen – hvít þrúga sem gefur af sér einföld hvítvín sem eru m.a. notuð til að búa til spænskt brandý. Í góðum höndum getur hún þó gefið ágæt hvítvín (í vínbúðunum er hægt að nálgast 2 hvítvín úr Airen). Tempranillo er mest ræktaða þrúgan, líkt og í flestum héruðum Spánar (í La Mancha kallast hún reyndar Cencibel).

Vín dagsins

Vínhús Tinto Pesquera var stofnað af Alejandro Fernández í Ribera del Duero árið 1972. Fernández hætti í skóla 12 ára og fór að vinna við að taka upp sykurrófur. Það var erfiðisvinna og Fernández hannaði vél til að taka upp rófurnar. Vélin sló í gegn og Fernández efnaðist vel. Hann seldi svo fyrirtækið, keypti jörð í nágrenni þorpsins Pesquera de Duero (heima bær Fernández) og stofnaði Tinto Pesquera. Á þessum tíma var aðeins eitt þekkt vínhús í Ribera del Duero – Vega Sicilia. Vínin frá Tinto Perquera slógu í gegn og hafa, ásamt Vega Sicilia, átt stóran þátt í að koma Ribera del Duero á þann stall sem það er í dag. Ribera del Duero fékk svo DO-skilgreiningu árið 1982. Fernández lést árið 2021, 88 ára að aldri.

Tinto Pesquera færði út kvíarnar og stofnuðu fleiri vínhús – Condado de Haza (Ribera del Duero), Dehesa La Granja (Castilla y Leon) og El Vínculo (La Mancha), sem er eina vínhús í eigu Tinto Pesquera þar sem ræktuð er önnur þrúga en bara Tempranillo.

Vín dagsins kemur frá vínhúsinu El Vínculo. Hér er á ferðinni hreint Tempranillo (eða Cencibel) sem fékk að liggja í 23 mánuði í amerískum eikartunnum og 4 mánuði á flösku áður en það var sett í sölu.

El Vínculo Crianza 2016 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með góða dýpt. Í nefinu eru brómber, kirsuber, plómur, bláber, kakó, allrahanda, vanilla og mildur lakkrís. Vínið er þurrt, með hátt áfengishlutfall (15%) og þétt en fáguð tannín. Þétt og gott eftirbragð með kirsuberjum, brómberjum, plómum, ristaðri eik, kakó og smá karamellu. 90 stig. Mjög góð kaup (3.333 kr). Fer vel með grilluðu kjöti (naut, létt villibráð, lamb) eða góðum pylsum.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (975 umsagnir þegar þetta er skrifað). Decanter gaf þessu víni 89 stig, Wine Spectator gaf því 86 stig.

El Vinculo Crianza 2016
Mjög góð kaup
El Vínculo Crianza 2016 fer vel með grilluðu kjöti (naut, létt villibráð, lamb) eða góðum pylsum.
4
90 stig

Vinir á Facebook