Bestu vín ársins 2022?

Á þessum tíma árs eru helstu vínskríbentar heimsins að birta niðurstöður sínar í vali á víni ársins. Útnefningarnar vekja mismikla athygli og útfærslurnar eru líka mismunandi. Líklega er val Wine Spectator á víni ársins sú útnefning sem hefur mest áhrif. Vínunnendur keppast við að verða sér úti um eintak af víninu sem hlýtur þennan heiður ár hvert. Stundum verður maður þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að smakka þessi vín, en því miður er það svo að flest þessara vína ber aldrei að okkar ströndum, hvað þá í hillur vínbúðanna.

Auðvitað eru skiptar skoðanir á þessum tilnefningum og útnefningum. Listi Wine Spectator þykir nokkuð hallur undir amerísk vín, einkum og sér í lagi Cabernet Sauvignon frá Kaliforníu. Undanfarinn áratug hafa slík vín verið valin vín ársins í 4 skipti, og í 2 skipti til viðbótar hefur heiðurinn fallið í skaut annarra Kaliforníuvína. Vín ársins í ár hjá Wine Spectator er auðvitað Cabernet Sauvignon frá Kaliforníu – Schrader Cellars Cabernet Sauvignon Oakville Double Diamond 2019.

Af öðrum vínum (vín sem mögulega má nálgast hér á landi) á listanum má nefna Tignanello 2019 (5. sæti), Loius Roederer Cristal 2014 (10. sæti), Montes Alpha Syrah (21. sæti), Chryseia 2019 (52. sæti), Muga Prado Enea Gran Reserva 2015 (53. sæti), Joseph Drouhin Pouilly-Fuissé 2020 (65. sæti) og Fontanafredda Barolo Serralunga d’Alba 2018 (78. sæti). Flestir þessir árgangar eru ekki enn komnir í hillur vínbúðanna en aðrir (og ekki mikið síðri) árgangar eru þar fyrir.

Bestu kaupin?

Tímaritið Wine Enthusiast gefur út tvo lista – bestu kaupin (best buy) og bestu kaupin á vínum til geymslu (cellar selection – kjallaravín?). Efst á listanum yfir kjallaravín (cellar selection) er Louis Roederer Cristal 2014, en þar má líka finna Bollinger Grande Année 2014 (5. sæti), Ridge Monte Bello 2019 (6. sæti), Masi Costasera Amarone Classico 2016 (48. sæti), Guado al Tasso 2019 (60. sæti), Chateau Carbonnieux 2019 (64. sæti) og Duckhorn Three Palms Vineyard Merlot 2018 (97 sæti). Þau vín sem hér eru upp talin fást öll í vínbúðunum (aðrir árgangar).

Á lista Wine Enthusiast yfir bestu kaupin árið 2022 er m.a. að finna CUNE Rosado 2021 (6. sæti), Dark Horse Pinot Grigio 2021 (11. sæti), Sogrape Silk & Spice 2020 (45. sæti), J. Lohr Riverstone Chardonnay 2020 (48. sæti) og Mezzacorona Pinot Grigio 2021.

Svo koma bráðum topp 100-listar frá James Suckling og eflaust fleirum.

Vínsíðan reiknar svo fastlega með að tilkynna um val sitt á Víni Ársins 2022 á gamlársdag, venju samkvæmt.

Vinir á Facebook