Le Dragon de Quintus Saint-Emilion 2018

Það er væntanlega hægt að ganga að því sem gefnu að nær allir vínáhugamenn kannist við Bordeaux. Þaðan koma bestu og þekktustu rauðvín heims og margir vínáhugamenn láta sig dreyma um að fá einhvern tíma að smakka sum þessara vína. Bestu vínin eru auðvitað eftirsótt um allan heim og kosta skildinginn, enda eftirspurnin langt umfram framboð. Mörg vínhús í Bordeaux senda frá sér tvö eða fleiri vín – aðalvín og svo s.k. „annað“ eða „þriðja“ vín. Oft er hægt að gera mjög góð kaup í þeim vínum, einkum í „öðru“ víninu.

Víngerð í Bordeaux á sér langa sögu sem hefst að sjálfsögðu með Rómverjum. Rómverjar fluttu með sér vínvið til ræktunar á nánast öllum þeim svæðum sem þeir hernámu á stórveldistíma Rómverja. Þegar Rómverjarnir fóru hélt vínræktin áfram og hefur verið samofin menningu þessara svæða.

Lengst af var Graves helsta vínræktarsvæðið í Bordeaux. Á 17. öld létu hollenskir kaupmenn þurrka upp mýrarnar í Medoc og hófu þar vínrækt með góðum árangri. Medoc varð í kjölfarið aðalhéraðið í Bordeaux.

Smá landafræði

Landafræðin skiptir miklu máli í Bordeaux, líkt og í mörgum öðrum vínhéruðum. Árnar Garonne og Dordogne renna saman í ána Gironde, sem rennur svo áfram vestur í Atlantshafið. Þessar ár skipta Bordeaux upp í þrjú meginsvæði – Entre-deux-Mers, „hægri bakkann“ og „vinstri bakkann“.

  • Entre-deux-Mers – útleggst á íslensku sem svæðið „milli tveggja sjáva“. Þetta er svæðið á milli Garonne og Dordogne. Landfræðilega stærsta svæðið. Eingöngu hvítvín sem eru kennd við Entre-deux-Mers AOC. Rauðvín frá þessu svæði eru seld sem Bordeaux Superiéur eða Bordeaux AOC.
  • Vinstri bakkinn“ – svæðið vestan (vinstra megin) við Garonne og Gironde. Skiptist í
    • Graves – svæðið vestan við Garonne, fyrir ofan borgina Bordeaux. Hér eru m.a. vínræktarsvæðin Pessac-Leognan AOC, Sauternes AOC og Barsac AOC. Lengst af mikilvægasta svæðið í Bordeaux. Áður þekktast fyrir rauðvínin sín (Englendingar kölluðu þau Claret) en nú líklega þekktast fyrir sætvín frá Sauternes.
    • Médoc – svæðið vestan við Gironde, neðan við borgina Bordeaux. Skiptist í Médoc AOC og Haut-Médoc AOC. Sex þorp í Haut-Médoc teljast sérstök vínræktarsvæði – Saint-Éstephe AOC, Pauillac AOC, Saint-Julien AOC, Listrac-Médoc AOC, Moulis-en-Médoc AOC og Margaux AOC.
  • Hægri bakkinn“ – svæðið austan (hægra megin( við Gironde og Dordogne. Skiptist í þrjú svæði – Libournais, Bourg og Blaye. Í Libournais, sem er meðfram bökkum Dordogne, eru 12 skilgreint vínræktarsvæði. Í daglegu tali þegar talað er um „hægri bakkann“ er þó almennt átt við Pomerol AOC og Saint-Emilion AOC

Þrúgurnar

Í Bordeaux hefur verið leyfilegt að nota fimm þrúgur í rauðvín – Cabernet Sauvignon, Cabernet Franx, Merlot, Petit Verdot og Carmenere. Á „vinstri bakkanum“ er Cabernet Sauvignon yfirleitt ráðandi, en á „hægri bakkanum“ er Merlot yfirleitt aðalþrúgan. Frá árinu 2019 hefur vínbændum í Bordeaux verið heimilt að rækta þrúgurnar Marsela, Touriga Nacional, Castets og Arinarnoa. Þetta gildir þó aðeins um vín sem eru seld undir merkjum Bordeaux Superiéur AOC eða Bordeaux AOC. Ástæðan er hækkandi meðalhiti á svæðinu, sem veldur því að Merlot inniheldur of mikinn sykur og vínin verða of áfeng.

Hvítvín í Bordeaux eru einkum gerð úr þrúgunum Sémillon, Sauvignon Blanc og Muscadelle. Dæmigert Bordeaux-hvítvín er 80% Sémillon og 20% Sauvignon Blanc. Einnig er heimilt að nota þrúgurnar Sauvignon Gris, Ugni Blanc, Colombard, Merlot Blanc, Ondenc og Mauzac. Nýlega varð svo heimilt að rækta þrúgurnar Alvarinho, Petit Manseng og Liliorila.

Meiri fróðleikur

Ef þið kannist ekki við vefinn Wine Folly þá er full ástæða fyrir ykkur til að skoða hann. Madeline Puckette er menntaður hönnuður og Sommelier og er einnig verðlaunaður rithöfundur. Madeline setur fram vínfróðleik á skemmtilegan og aðgengilegan hátt. Hér er tengill á gagnvirka siðu um Bordeaux, sem er mjög áhugaverð.

Vín dagsins

Chateau Quintus er rétt fyrir utan þorpið Saint-Emilion. Vínekrurnar ná yfir 28 hektara og meðalaldur vínviðarins er rúmlega 30 ár. Líkt og annars staðar í Saint-Emilion er Merlot ríkjandi í ræktuninni, eða um 2/3 hlutar. Cabernet Franc er 26% ræktunarinnar og Cabernet Sauvignon 8%.

Vínhúsið hét áður Château Tertre Daugay en árið 2011 komst það í eigu Domaine Clarence Dillon, sem á m.a. Chateau Haut-Brion og Chateau La Mission Haut-Brion. Nafnið Quintus vísar til þess að vínhúsið varð hið fimmta í eigu Clarence Dillon, en það mun vera gamall rómverskur síður að nefna 5. soninn Quintus. Vín dagsins er s.k. annað vín frá Quintus – aðalvínið heitir auðvitað Chateau Quintus og þriðja vínið heitir Saint-Emilion de Quintus. Vín dagsins er gert úr Merlot (89%) og Cabernet Franc (11%) – hlutföllin breytast eitthvað milli árganga.

Le Dragon de Quintus Saint-Emilion 2018 er djúprautt á lit, unglegt með góða dýpt. Þétt angan af leðri, kirsuberjum, vanillu og kryddum. Þykk tannín, góð sýra og miðlungsávöxtur. Plómur, kirsuber, pipar, vanilla og mildir eikartónar í þéttu og góðu eftirbragðinu. 92 stig. Þarf eflaust 3-5 ár til viðbótar í geymslunni. Fór samt einstaklega vel með grilluðu ribeye cap. Skólabókardæmi um gott „annað vín“ frá góðum framleiðanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,3 stjörnur (aðeins 20 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur þessu víni 89-91 stig

Le Dragon de Quintus Saint-Emilion 2018
Le Dragon de Quintus Saint-Emilion 2018 er efnilegt vín frá hægri bakkanum í Bordeaux, sem fór þó ljúflega með grilluðu ribeye. Skólabókardæmi um gott "annað vín" frá góðum framleiðanda.
4.5
92 stig

Vinir á Facebook