Chateau Pipeau Saint-Émilion Grand Cru 2016

Það er áhugavert að fylgjast með umræðunni um það hvort eigi að leyfi sölu bjórs og léttvína í matvörubúðum. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að ef ÁTVR verður lagt af í núverandi mynd og salan gefin frjáls er hætt við að risarnir á matvörumarkaðnum myndu einoka söluna og úrvalið myndi minnka verulega, a.m.k. utan höfuðborgarsvæðisins. Ég sé þó fyrir mér að fljótlega myndu líka spretta upp sjálfstæðar vínbúðir sem myndu þrauka mislengi. Það merkilegasta í þessari umræðu er samt tilvist netverslana og hvort starfsemi þeirra sé heimil. Það er ákaflega auðvelt að versla vín á netinu, þ.e.a.s. ef verslunin er staðsett erlendis. Varan kemur heim að dyrum nokkrum dögum síðar og vöruúrvalið er margfalt það sem er að finna í verslunum ÁTVR (og Sante…). Það má hins vegar ekki gera lítið úr þeirri staðreynd að úrvalið í verslunum ÁTVR er almennt mjög gott og verðið hagstætt, einkum þegar kemur að betri og dýrari vínum (ódýru vínin eru nefnilega hlutfallslega dýrust).

Ég hef töluvert keypt á netinu undanfarin 2-3 ár, en þá eingöngu vín sem ekki fást á Íslandi því það borgar sig engar veginn að panta að utan það sem fæst hérlendis. Það hefur svo sem sést greinilega hér á Vínsíðunni að ég hef töluvert verið að fjalla um vín sem ekki fást hérna. Vín dagsins er í þeim flokki og ég vona að lesendur Vínsíðunnar sýni þessu skilning.

Vín dagsins kemur frá héraðinu Saint-Émilion sem er á hægri bakkanum í Bordeaux. Vínin eru almennt að mestu úr Merlot og Cabernet Franc, en Cabernet Sauvignon kemur líka oft við sögu. Vínin eru oft nokkuð tannísk og ávaxtarík, þar sem plómur og dökk kirsuber eru ráðandi. Þessi vín passa vel við íslenskar matarvenjur, einkum þeirra sem elska rautt kjöt hvers konar.

Vín dagsins

Vínekrur Chateau Pipeau ná yfir um 25 hektara og þar eru um 90% Merlot, 5% Cabernet Franc og 5% Cabernet Sauvignon, sem endurspeglast í sömu hlutföllum í víninu. Gerjun á sér stað í stórum stáltönkum en að því loknu er vínið látið liggja í eikartunnum (70% nýjar tunnur) í 12-14 mánuði. Ársframleiðslan er að jafnaði um 12.500 kassar eða um 75.000 flöskur. Líkt og svo margir framleiðendur í Bordeaux þá framleiðir vínhúsið ódýrari vín undir merkjunum Chateau Pindefleurs (vín nr 2) og Chateau Joinin (nr 3).

Chateau Pipeau Saint-Émilion Grand Cru 2016 er kirsuberjarautt á lit, með góða dýpt og byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður kirsuber, plómur, leður, tóbak og mildan eikarkeim. Í munni eru þétt tannín, góð sýra og fínn ávöxtur. Leður, bláber, plómur, súkkulaði, tóbak og mild eik í góð eftirbragðinu. 90 stig. Fer vel með lambi, nauti og villibráð, jafnvel grilluðu fuglakjöti. Mun njóta sín vel næstu 3-5 ár.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,2 stjörnur (1.116 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur þessu víni 87-89 stig (smakkað fyrir átöppun). Wine Spectator gefur þessu víni 87 stig.

Chateau Pipeau Saint-Émilion Grand Cru 2016
Chateau Pipeau Saint-Émilion Grand Cru 2016 fer vel með lambi, nauti og villibráð, jafnvel grilluðu fuglakjöti.
4
90 stig

Vinir á Facebook