Louis Latour Grand Ardéche Chardonnay 2018

Vínhús Louis Latour rekur sögu sína aftur til ársin 1731 þegar Denis Latour eignaðist sína fyrstu vínekru í Cote de Beaune. Maison Louis Latour varð svo til árið 1797. Fyrstu áratugina ræktaði Latour sínar eigin þrúgur, en árið 1867 hóf fyrirtækið að starfa sem Negociant, þ.e. að kaupa einnig þrúgur frá öðrum bændum. Árið 1979 hóf Louis Latour að rækta Chardonnay í Ardeche-héraði og árið 1985 kom fyrsti árgangurinn af víni dagsins.

Sá Louis Latour sem stýrir fyrirtækinu í dag er ellefta kynslóð víngerðarmanna í Latour-fjölskyldunni og sá sjöundi sem ber nafn Louis Latour.

Latour framleiðir gríðarlegan fjölda vína eða um 170 ef marka má heimasíðu fyrirtækisins. Þar af eru fjögur vín framleidd í Ardeche-héraðinu – þrjú Chardonnay og eitt Viognier. Héraðið Ardeche er rétt fyrir sunnan borgina Lyon í Frakklandi, og liggur að vesturbakka árinnar Rón. Segja má að Ardeche sé eitt nyrsta héraðið í norðurhluta Rónardals, en strangt til tekið tilheyrir það þó ekki sama vínhéraði. Chardonnay er langalgengasta þrúgan í Ardeche, eða um 40% uppskerunnar. Þar á eftir koma Syrah (15%) og Viognier (9%) og afgangurinn eru margvíslegar aðrar þrúgur.

Vín dagsins

Eins og áður segir kom fyrsti árgangurinn af víni dagsins fram árið 1985. Hér er á ferðinni hreint Chardonnay sem að lokinni gerjun hefur fengið að liggja í 8-10 mánuði á eikartunnum (um 20% nýjar tunnur).

Louis Latour Grand Ardeche Chardonnay 2018 er strágult á lit og unglegt. Í nefinu finnur maður gul epli, steinefni, ferskjur, ristað brauð og smá vanilla. Í munni er vínið með miðlungsfyllingu og hóflega sýru. Eplahýði, steinefni og smá möndlur í ljúfu eftirbragðinu. Fer vel sem fordrykkur eða með fiski, skelfiski, skinku og pinnamat. 89 stig. Ætti að eldast vel næstu 3-5 árin en er ekki ætlað til lengri geymslu en það.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3.9 stjörnur (266 umsagnir þegar þetta er skrifað). Fyrri árgangar hafa verið að fá 87-88 stig hjá Wine Spectator.

Louis Latour Grand Ardéche Chardonnay 2018
Louis Latour Grand Ardeche Chardonnay 2018 fer vel sem fordrykkur eða með fiski, skelfiski, skinku og pinnamat.
4
89 stig

Vinir á Facebook