Numanthia

Síðasta vetur fór ég að panta mér vín á netinu. Eitthvað keypti ég úr netverslun en að mestu leyti keypti ég vín á uppboðum. Það er hægt að gera mjög góð kaup á uppboðssíðum og þar er líka möguleiki á að nálgast vín sem fást sjaldnast í vínbúðum. Það er til þess að gera lítið mál að panta sér vín í erlendum netverslunum og í raun fáránlegt að innlendar netverslanir með áfengi séu ekki leyfðar. Væntanlega er það þó aðeins spurning um tíma, því flestir átta sig væntanlega á tvískinnungnum sem þarna ríkir.

Fyrir nokkuð mörgum árum las ég mér fyrst til um vínin frá Numanthia í Toro-héraði á Spáni. Það leið þó langur tími áður en ég smakkaði vín frá þeim í fyrsta skipti, en þá var ég staddur í San Diego í Bandaríkjunum og smakkaði þá Termes, sem er eiginlega grunnvínið þeirra. Það lenti engu að síður í 2. sæti á topp 100-lista Wine Spectator árið 2009 (96 stig, $27). Mér fannst það ákaflega gott og beið spenntur eftir að kynnast fleiri vínum frá þeim. Það var þó ekki fyrr en í vor að ég komst yfir magnum-flösku af Numanthia 2004 fyrir 170 evrur. Ég held að þetta sé ein dýrasta vínflaska sem ég hef keypt, en líklega einnig ein sú besta. Ég keypti svo 2 flöskur af 2014-árgangnum sl. sumar og er búinn að prófa aðra þeirra. Þó að hún sé mjög góð þá nær hún ekki alveg sömu hæðum og 2004-árgangurinn, sem var líka alveg einstaklega góður.

Numanthia 2004 og 2014

Numanthia eru gerð úr hreinu Tempranillo, eða Tinto de Toro eins og þrúgan kallast í Toro. Þrúgurnar koma af 70-100 ára gömlum vínvið og vínið er látið liggja í frönskum eikartunnum í 19 mánuði áður en vínið er sett á flöskur.

Bodegas Numanthia 2004 er fallega dökkrautt í glasi, með góða dýpt og sýnir ágætan þroska. Í nefinu er þroskuð kirsuber, kryddjurtir, tóbak, pipar og eik. Í munni er stinn tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Lakkrís, tóbak, kakó, vanilla og ögn af karamellu í frábæru bragðinu sem heldur sér vel og lengi. Gríðarlega þétt og gott vín og í hópi þeirra bestu sem ég hef prófað. Þetta vín á eflaust 10 góð ár eftir áður en það fer að dala. 97 stig – frábært vín. Notendur Vivino gefa þessu víni 4.3 stjörnur (375 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Spectator gefur víninu 95 stig og Robert Parker gefur því 98 stig.

Bodegas Numanthia 2014 er fallega kirsuberjarautt í glasi, með góða dýpt og enn unglegt að sjá. Í nefinu eru sólber, eik, pipar, leður og vanilla. Í munni eru stinn tannín, góð sýra og þéttur ávöxtur. Leður, vanilla, tóbak og ljúfur eikarkeimur í góðu eftirbragðinu. Þarf smá tíma til að opnast. 95 stig. Fer vel með góðri nautasteik eða bara eitt og sér. Vínið fær 4.3 stjörnur frá notendum Vivino (1960 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þetta vín fær 91 stig hjá Robert Parker og 93 stig hjá Wine Spectator.

Numanthia
Vínin frá Bodegas Numanthia í Toro-héraði eru með þeim allra bestu frá Spáni - hreinn unaður í glasi!
5
97 stig

Vinir á Facebook