Tommasi Pinot Grigio Le Rosse 2018

Alþjóðlegi Pinot Grigio/Pinot Gris dagurinn er á morgun, 17. maí, og þá er auðvitað tilvalið að fá sér Pinot Gris (eða Grigio) með matnum. Pinot Gris og Pinot Grigio eru sama þrúgan, en eins og nöfnin gefa til kynna þá er annað franskt og hitt ítalskt. Í Austurríki kallast þessi sama þrúga Grauburgunder. Líklega eru þekktustu vín þessarar þrúgu frá Alsace-héraði í Frakklandi, en þrúgan er samt ræktuð víða um heim. Þannig má til dæmis einnig finna vín úr þessari þrúgu frá Rúmeníu, Argentínu, Þýskalandi, Nýja-Sjálandi, Suður-Afríku, Chile, Ástralíu og Bandaríkjunum í vínbúðunum, og það er allur gangur á því hvort vínin kallast Pinot Gris eða Pinot Grigio. Stíllinn getur hins vegar verið nokkuð misjafn. Þannig eru ítölsku vínin (og sum hinna) yfirleitt létt og frískleg, með tóna af melónum og stundum ferskjum. Frönsku vínin eru yfirleitt með aðeins meiri fyllingu og sætari tóna með möndlum og suðrænum ávöxtum.

Vín úr Pinot Gris/Grigio eru yfirleitt ákaflega matarvæn og ganga vel með margs konar sjávarréttum, ljósu fuglakjöti, austurlenskum mat og grænmetisréttum. Það má eiginlega segja að Pinot Gris/Grigio gangi með nánast öllum mat (þó ég myndi kannski ekki velja það með nautasteik eða villibráð).

Vín dagsins

Í tilefni af alþjóðlega Pinot Gris/Grigio-deginum á morgun þá er vel við hæfi að vín dagsins sé úr þessari þrúgu. Flestir íslenskir vínáhugamenn kannast við vínin frá Tommasi-fjölskyldunni á Ítalíu og þau hafa yfirleitt farið vel ofan í landann. Hér er á ferðinni vín frá Valpolicella Classico-héraðinu, gert úr 100% Pinot Grigio sem er látið liggja í 5 mánuði í stáltönkum áður en það er sett á flöskur. Ég fjallaði á sínum tíma um 2015-áranginn og var þá mjög ánægður með hann.

Tommasi Le Rosse Pinot Grigio 2018 er fölgult á lit, unglegt. Í nefinu eru melónur, sítrusávextir, sumarblóm, perubrjóstsykur og smá epli. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru og miðlungsfyllingu. Síturs og perur ráðandi í eftirbragðinu. Góð kaup (2.499 kr). 87 stig. Fer vel sem fordrykkur eða með sjávarréttum, pasta og grænmetisréttum.

Notendur Vivino.com gefa þessu víni 3.7 stjörnur (648 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þorri Hringsson gefur þessu víni 3,5 stjörnur.

Tommasi Pinot Grigio Le Rosse 2018
Fer vel sem fordrykkur eða með sjávarréttum, pasta og grænmetisréttum.
3.5
87 stig

Vinir á Facebook