Svarta slaufan

Þeir í Alsace eru ekki mikið fyrir að blanda saman þrúgum, en vín dagsins er engu að síður blandað úr tveimur þrúgum frá Alsace – Riesling og Pinot Gris.  Þessar þrúgur gefa af sér mjög aðgengileg og matarvæn vín hvor um sig og kannski bara tímaspursmál að þeim yrði blandað saman á þennan hátt.  Reyndar hafa þeir í Alsace mátt blanda pínulítið en alltaf þurft að gefa upp ráðandi þrúguna í víninu.

Black Tie by Pfaff Alsace Riesling Pinot Gris 2017 er ljósgullið og fallegt vín.  Í nefinu finnur maður sítrónur, perur, aspas, ögn af steinolíu og smá ananas.  Í munni er góð sýra, fínn ávöxtur og smá sæta. Ferskjur, anananas og hunangsmelónur í ágætu eftirbragðinu. Smá togstreita milli þrúganna en samt ágætis blanda.  Ágætt sem svalandi sumardrykkur en líka prýðilegt matarvín með salati, fiski, ljósu fuglakjöti, asískum mat eða pasta. Ágæt kaup (2.490 kr). 87 stig.

Hvað segja hinir?

Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur 4 stjörnur.

Vinir á Facebook