Prýðilegt Montepulciano

Víngerð Cantine Torri telst ekki gömul á ítalskan mælikvarða – hóf starfsemi árið 1966.  Vínekrurnar liggja við ána Tronto í héraðinu Abruzzo, sem liggur að strönd Adriahafs.  Samkvæmt reglum um vín sem eru skilgreind sem Montepulciano d’Abruzzo þurfa þau að innihalda minnst 85% Montepulciano en einnig er leyfilegt að bæta Sangiovese í vínin (allt að 15%).

Cantine Torri stundar lífræna víngerð og sendir frá sér rauðvín, hvítvín, freyðivín og rósavín í 3 mismunandi vörulínum sem nefnast 420, Turan og Bakán.  Vín dagsins er rauðvín úr síðastnefndu línunni og er hreint Montepulciano.  Það er látið liggja í stórum eikartunnum í 8-10 mánuði og svo 6 mánuði til viðbótar á flöskum áður en það fer í sölu.

Vín dagsins

Cantine Torri Montepulciano d'Abruzzo DOCGCantine Torri Bakán Montepulciano d’Abruzzo DOCG 2013 er kirsuberjarautt á lit og unglegt, þó aðeins votti fyrir þroska í kantinum.  Í nefinu eru vanilla, þurrkaðir ávextir, eik og krydd.  Í munni eru góð tannín, fín sýra og ágætur ávöxtur.  Rauð ber, súkkulaði og smá lakkrís í ágætu eftirbragðinu.  Prýðilegt matarvín með pizzum, ostum, pasta og kjötréttum. Góð kaup (2.590  kr). 89 stig.

Vinir á Facebook