Gott Chianti Superiore

Það eru ekki öll rauðvín undir 2.000 kr í Vínbúðunum sem eru þess virði að kaupa (mín skoðun).  Þau eru samt nokkur, þar á meðal vín dagsins.  Vínhúsið Poggio al Casone í Toscana er í eigu Castellani-fjölskyldunnar (gætið þess þó að rugla þeim ekki við Michele Castellani, sem er staðsettur í Valpolicella og býr til frábær Amarone).  Vínið er skilgreint sem Chianti Superiore, sem þýðir að þrúgurnar koma frá Chianti-héraðinu (þó ekki Chianti Classico) og vínið verður að innihalda a.m.k. 80% Sangiovese og verður að þroskast í minnst 9 mánuði, þar af 3 í flöskum, áður en það fer í almenna sölu.
Poggio al Casone Chianti Superiore 2015 er gert úr þrúgunum Sangiovese (90%) og Canaiolo (10%.  Það er kirsuberjarautt á lit og unglegt að sjá.  Í nefinu er pipar, kirsuber, anís og ferskar kryddjurtir.  Í munni er vínið frísklegt, ágæt sýra en aðeins hrjúf tannín. Góður ávöxtur. Kirsuber, pipar og smá mynta í ágætu eftirbragðinu.  Hentar vel með ítölskum mat – pizzur og pasta, ostum, fugla- og svínakjöti. Góð kaup (1.999 kr).
87 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook