Léttur og góður spánverji

Það virðist vera óendanlegur straumur af gæðavínum á góðu verði frá Spáni.  Spánverjar hafa verið heppnir með árferðið undanfarin ár en nú eru að detta inn vín frá 2013 og 2014 sem voru ekki alveg í sama gæðaflokki og árin á undan.  Ekki svo að skilja að vínin séu léleg eða óspennandi – við vorum bara orðin svo góðu vön…
Vín dagsins kemur frá Rioja-héraði og er gert úr þrúgunum Tempranillo (95%) og Mazuelo (5%).  Það hefur fengið að liggja í 14 mánuði um tunnum úr franskri og amerískri eik, og er svo geymt í 9 mánuði á flösku áður en það fer í sölu.
Bodegas LAN Rioja Crianza 2013 er dökkkirsuberjarautt á lit, unglegt, með sæmilega dýpt og fallega tauma.  Í nefinu eru kirsuber, tókbak og krydd. Í munni er stinn tannín, hæfileg sýra, ágætur ávöxtur en skortir aðeins fyllingu. Keimur af vanillu og ögn af appelsínuberki í eftirbragðinu.  Ágætt matarvín (ostar, grillað kjöt, pizza, fuglakjöt) eða bara eitt og sér. Góð kaup (1.999 kr). 86 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook