Vínin með jólamatnum 2016

Jólin nálgast óðfluga og ekki seinna vænna að fara að huga að jólavíninu.  Væntanlega er jólamaturinn í nokkuð föstum skorðum, en það þarf hins vegar ekki að gilda um vínin.  Hér eru nokkur ráð um val á víni með jólamatnum.
Humar/Skelfiskur – ef þú ert með humar eða annan skelfisk í forrétt eða aðalrétt þá þarf aðeins að vanda valið á víninu.  Hér hentar best að vera með gott Chardonnay, t.d. frá Chablis eða Búrgúndí (Chateau de Santenay Chardonnay Vielles Vignes) eða Nýja-Sjálandi (Cloudy Bay Chardonnay), en góður Riesling frá Alsace (Rene Mure Riesling Signature) getur líka farið vel með þessum mat.
Hangikjöt – það getur verið erfitt að velja vín sem hentar með hangikjöti.  Reyktur og saltaður matur er ekki besti vinur vínsins, en það getur auðveldað valið að hér er bæði hægt að velja um rauðvín, t.d. Crianza frá Rioja (Cune Rioja Crianza), eða hvítvín, t.d. Gewurztraminer (Cono Sur Bicicleta Gewurztraminer) eða Pinot Gris frá Alsace (Domaines Schlumberger Pinot Gris les Princes Abbes).
Hreindýr – alvöru steik kallar á alvöru vín og hér þarf maður að skoða vín í stærri kantinum.  Rauðvín frá Bordeaux (Chateau Tour Pibran), ofur-Toskani (Isole e Olena Cepparello), Brunello di Montalcino (Banfi Brunello di Montalcino) eða gott Cabernet Sauvignon frá Napa Valley (Black Stallion Cabernet Sauvignon).
Kalkún – ef þú ert með kalkúna þá er það eiginlega meðlætið (aðallega fyllingin) sem ræður ferðinni.  Ef þú ert með ávaxtafyllingu þá kemur eiginlega bara rauðvín til greina, en ef fyllingin er af öðrum toga þá koma bæði rauð og hvít vín til greina, en ég myndi þó frekar hallast að hvítvíninu.  Ef rauðvín verður fyrir valinu þá myndi Pinot Noir frá nýja heiminum passa vel með (Cono Sur Pinot Noir Reserva Especial), einnig Cotes du Rhone (E. Guigal Cotes du Rhone) eða Crianza frá Rioja (Cune Rioja Crianza).  Ef þú velur hins vegar hvítvín þá hentar Riseling frá Alsace eða Chardonnay frá suður-Ameríku.
Aligæs/Önd – ég er með aligæs á Aðfangadagskvöld, en það gilda nánast sömu lögmál um aligæsina og um öndina.  Vínið á helst að vera rautt og ég myndi velja vín frá Bordeaux eða Rhone (Delas Crozes Hermitage Les Launes eða vín í þeim stíl), Reserva frá Rioja (CUNE Reserva) eða jafnvel gott Malbec frá Argentínu (Dona Paula Estate Malbec)
Lambakjöt – um lambið gilda sömu lögmál og venjulega – gott rauðvín sem má þó ekki vera of þungt.  Pinot Noir frá Búrgúndí eða Nýja-Sjálandi, Reserva frá Rioja (CUNE Reserva) eða Ribera del Duero eða gott Chianti Classico frá Ítaliu (Isole e Olena Chianti Classico).
Rjúpa – hér erum við í svipuðum hugleiðingum og með hreindýrið.  Rauðvín frá Bordeaux (Chateau Tour Pibran), Ástralskur Shiraz (Peter Lehmann Futures Shiraz), Brunello di Montalcino (Tommasi Casisano Brunello di Montalcino) eða vín frá betri hluta Rónardalsins, t.d. Cote-Rotie (E. Guigal Cote Rotie) eða Chateauneuf-du-Pape (Clos de l’Oratoire Chateauneuf-de-Pape).
Hamborgarhryggur – hér getur maður verið í svipuðum pælingum og með hangikjötið, en hryggurinn er ekki jafn saltur og reyktur, og því aðeins auðveldari viðureignar.  Létt rauðvín hentar best með hamborgarhryggnum, t.d. frá Valpolicella (Allegrini Valpolicella), gott Merlot frá Washington (Columbia Crest Grand Estates Merlot), eða Pinot Noir frá Nýja-Sjálandi (Saint Clair Pioneer Block 4 Pinot Noir).
Eftirrétturinn – þó að maður sé oft orðinn vel saddur þegar kemur að eftirréttinum á aðfangadagskvöld, þá er hann oft það sem margir bíða eftir allt árið.  Rétt vín með eftirréttinum getur lyft honum upp á æðra plan.  Ef þú ert með ís eða búðing/frómas, þá fer vel að drekka sætvín með, t.d. Late-harvest Riesling eða vín frá Sauternes, eða þá hálfsætt freyðivín.  Ef eftirrétturinn er hins vegar byggður á súkkulaði þá er púrtvínið ómissandi.  Því miður fær maður ekki mörg árgangspúrtvín í Vínbúðunum en 10 ára Tawny eða LBV púrtvín standa sig líka vel.  Önnur góð hugmynd er Pujol Rivesaltes Grenat, sem er sætt rauðvin og kemur skemmtilega á óvart.

Vinir á Facebook