Ofur-Feneyingur

Ég hef áður fjallað um ofur-Toscana – gæðavín sem komu Ítalíu aftur á vínkortið (a.m.k. að mati sumra).  Færri hafa líklega heyrt talað um ofur-Feneyinga, eða super-Venetian…
Vínin frá Chianti og Valpolicella eru vel þekkt um allan heim og hafa verið um langt skeið.  Framan af voru þetta þunn og ódýr vín – hver man ekki eftir að hafa séð stráflöskur með Chianti? – og vildu nokkrir framleiðendur brjóta sér leið út úr því regluverki sem gilti um víngerð í þessum héruðum, með því að framleiða vín úr öðrum þrúgum en annars var heimilt að nota og láta þau þroskast lengur og á annan hátt en reglurnar sögðu til um.  Vínin flokkuðust þá sem borðvín, sem er lægsta þrepið í vínflokkun þessara héraða, en þar sem þau voru miklu betri en önnur borðvín þá fengu þau fljótt nafnbótina ofur-Toscanar eðs super-Tuscans.  Í dag hafa þessi vín fengið eigin flokkunarskilgreiningu í vínreglugerðunum og þykja sum hver með bestu vínum Ítalíu.  Svipaða sögu má segja um víngerð í Valpolicella.  Árið 1964 hóf Masi víngerðin að selja vín sem nefndist Campo Fiorin sem framleitt var með s.k. tvöfaldri gerjun.  Fyrst var þrúgusafinn gerjaður á hefðbundinn hátt en síðan gerjaður á ný eftir að hálf-þurrkuðum þrúgum (sömu tegundir og fóru í upprunalegu gerjunina).  Upphaflega var reyndar notað hratið af þrúgum sem voru notaðar við gerð Amarone, en í dag eru þrúgurnar ekki endurgerjaðar á sama hátt. Þessi aðferð kallast í dag ripasso (ripasso þýðir endurskoðun eða endurnýting) og er orðin vel þekkt hjá mörgum vínunnendum. Þessi víngerð var ekki almennt viðurkennd á þessum tíma og vínið því flokkað til ódýrra borðvína – líkt og ofur-Toscanarnir á sínum tíma – en fengu svo viðurnefnið super-Venetian eða ofur-Feneyingar.  Í dag hafa þessi vín sinn eigin sess í flokkunarreglunum (flokkast sem IGT-vín).  Þessi upphaflegi ofur-Feneyingur, Campo Fiorin, hefur haldið sínum sessi í rúm 50 ár, en reyndar heitir vínið núna Campofiorin og býst ég við að margir íslendingar þekki vínið af góðu einu.
13168_pMasi Campofiorin 2012 er gert úr þrúgunum Corvina, Rondinella og Molinara.  Það er fallega dökkrúbínrautt á lit, með angan af kirsuberjum, jarðarberjum og plómum, með vanillu, kanel og smá kryddum.  Í munni er vínið frísklegt, með mjúkum tannínum, hæfilegri sýru, aðeins kryddað með berjabragði og aðeins vottar fyrir appelsínuberki.  Ágætt eftirbragð. Gott matarvín sem hentar með margvíslegum mat (pasta, kjötréttir, sveppir, ostar).  Góð kaup (2.740 kr).

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook