Vega Sicilia Unico 2004

Flaggskip Vega Sicilia og Ribera del Duero er Unico, á því er væntanlega enginn vafi.  Þetta vín er eitt af þeim stóru í vínheiminum, á stalli með Pétrus, Latour, Mouton Rothschild og Domaine Romanee-Conti, og því einstakt tækifæri fyrir vínnörda eins og mig að fá að smakka þetta vín.
Vega Sicilia Unico 2004Vega Sicilia Unico er gert úr Tempranillo og Cabernet Sauvignon (þessi árgangur er 85% / 15%) og hvergi er til sparað við gerð vínsins – aðeins bestu berin af bestu vínekrunum fara í þetta eðalvín. Að lokinni gerjun hefst langt þroskaferli, þar sem vínið er látið þroskast í alls 9 ár (6 ár í tunnum og 3 í flösku) áður en það er sett í sölu. Í bestu árgöngum er vínið að fá toppeinkunn hjá öllum víngagnrýnendum, en í lakari árgöngum fær vínið „bara“ mjög góða einkunn!
Vega Sicilia Unico 2004 er dökk-múrsteinsrautt, sýnir þroskamerki, fallegir taumar í glasinu.  Í nefinu er eikin áberandi ásamt leðri, súkkulaði, rauðum berjum, smá myntu og kandís.  Í munni er vínið silkimjúkt og hreinlega nuddar á manni bragðlaukana.  Eftirbragðið nánast endalaust.  Þetta vín kostar rétt rúmlega 30.000 krónur og er ekki svo slæm fjárfesting!

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook