Cune Rioja Crianza 2010

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni þá var árið 2010 eitt það besta í manna minnum í spænskri víngerð, einkum í Rioja.  Ég hef áður fjallað um nokkur vín úr þessum frábæra árgangi, og hér kemur enn eitt gæðavínið.

Cune er stórt nafn í spænskri víngerð, og Cune Rioja Imperial Gran Reserva 2004 var valið vín árins 2013 hjá Wine Spectator.  Vínið sem hér um ræðir er þó nokkrum þrepum neðar en flaggskipið Imperial, eða bara venjulegt Crianza.

Cune Rioja Crianza 2010 er rúbínrautt, unglegt.  Niðursoðin jarðarber, kirsuber, eik, vottur af anís, kaffi .  Stinn tannín, sýra undir meðallagi, tóbakskeimur og timjan í eftirbragðinu. Gæðavín á mjög góðu verði (2.299 kr). Gott matarvín – hentar vel með nauti og lambi, og fer líka vel með grilluðum kjúklingi.  Því miður er þó líklega 2011-árgangurinn kominn í hillur vínbúðanna, sem er þó alls ekkert slæmt vín, fær 87 stig hjá Wine Spectator (sama og 2010 fékk).

Vinir á Facebook