Castelforte Soave Classico 2012

Castelforte soave classico 2012Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt, einkum ef það er úr þrúgu sem ég hef ekki smakkað áður.  Þannig man ég ekki eftir að hafa smakkað vín úr þrúgunni Garganega, en sú þrúga er notuð við gerð hvítvína frá Soave (borið fram sva-ve) í nágrenni Veróna á Norður-Ítalíu.  Þessi þrúga telst ein mikilvægasta þrúgan í ítölskum hvítvínum, en samt eru vínin yfirleitt ekki mjög dýr, og hægt að fá mjög góð vín á góðu verði. Í Soave er heimilt að blanda Chardonnay og Verdicchio út í, allt að 30%. Yfirleitt bera þessi vín keim af ferskjum, hunangsmelónum og appelsínuberki, en geta einnig verið örlítið sölt.  Þeim má líkja við Sauvignon Blanc eða Pinot Gris, en þó örlítið feitari.  Þau eru til í margs konar stíl – allt frá freyðivíni (Soave spumante) til sætvíns (Recioto di Soave).  Soave superiore er gæðastimpill sem gefur til kynna að vínið hafi verið látið þroskast í a.m.k. 8 mánuði fyrir átöppun, og að aðeins hafi verið notaðar sérvaldar þrúgur í vínið.  Vínin geta reyndar líka kallast Soave Classico, líkt og vínið sem hér um ræðir – Castelforte Soave Classico 2012.  Þetta er nokkuð dæmigert Soave – melónur, ferskjur og sítrus, smá krydd.  Mjög gott fiskréttavín.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook