Food & Fun 2016

Hin árlega Food & Fun matarhátið stendur nú yfir á fjölmörgum veitingahúsum borgarinnar.  Mig hefur lengi langað til að skella mér á þessa hátíð en aldrei látið verða af því fyrr en nú, þegar Guðjón og Gunna bókuðu borð á veitingastaðnum Matur og Drykkur, og þá var ekki hægt að sleppa þessu tækifæri.  Fyrst áttum við bara að vera 4 við borðið en þegar sest var að borðum vorum við orðin 8, þar sem nokkrir valinkunnir einstaklingar höfðu bæst í hópinn – Nanna Rögnvalds, Dominique Plédel Jónsson, Ásgeir Sandholt og Lísa unnusta hans.
BleikjaVeislan hófst með keppniskokteil staðarins – lífsins vatni – sem var alveg prýðilegur.  Við vorum síðan leidd inn í Sögusafnið, sem er í sama húsi, þar sem búið var að dúka upp borð í miðri sögusýningunni!  Við hófumst svo handa við að takast á við fimm rétta matseðil, þar sem réttirnir voru hver öðrum girnilegri og gómsætari.  Gestakokkur var hinn færeyski Leif Sörensen, sem kom og heilsaði upp á okkur og fræddi okkur um réttina sem boðið var upp á.  Upphaflega stóð til að hafa krabba í fyrsta rétt en hann leit víst ekki nógu vel út þannig að í staðinn var boðið upp á ígulker úr Breiðafirði.  Ég hafði aldrei smakkað ígulker, en eftir þessa reynslu er ég meira en til í að prófa þau aftur.  Því næst tók við hrár þorskur, þá bleikja, lambalund og loks skyr-eftirréttur.
Með þessu drukkum við vín sem höfðu verið valin sérstaklega með réttunum – Spy Valley Sauvignon Blanc, Dopff & Irion Riesling, Paul Jaboulet Les Jalets Crozes Hermitage og loks Dopff & Irion Gewurztraminer með eftirréttinum.
Kvöldið var einstaklega vel heppnað og við vorum sammála um að á næsta ári förum við á a.m.k. tvo staði!

Vinir á Facebook