Cocoon Zinfandel 2013

Cocoon Zinfandel 2013 er tiltölulega nýlegt vín í hillum vínbúðanna.  Vínið kemur frá Lodi í Kaliforníu, en það svæði hefur verið að sækja í sig veðrið í víngerð undanfarin ár og er eitt helsta Zinfandelsvæði heims.  Þarna er mjög heitt í veðri og þurrt, og vínin kröftug og bragðmikil í dæmigerðum Nýja heims-stíl, og það gildir líka um þetta vín sem hér um ræðir.  Það er auðvitað ennþá frekar ungt, kirsuberjarautt með fjólubláa rönd.  Í nefið kemur mynta, eik, vanilla, plómur og kirsuber, dálítið kryddaður keimur líkt og yfirleitt þegar um zinfandel er að ræða.  Vínið er í ágætu jafnvægi, með góðu berjabragði, skortir kannski aðeins upp á fyllingu en eftirbragðið heldur sér vel.  Einkunn: 7,5 – góð kaup (2.498 kr).  Hentar vel með grillkjötinu.

Vinir á Facebook