Beaujolais-smökkunin

Í kvöld var mjög skemmtileg vínsmökkun í Perlunni á vegum Bakkusar, Vínoteks, Perlunnar og Georges Duboeuf, þar sem kynnt voru vín frá ókrýndum konungi Beaujolais, Georges Duboeuf.  Þar var staddur fulltrúi fyrirtækisins, Bernard Georges, sem fræddi áhugasama um vínin sem boðið var upp á.
20131007-195411.jpg
Georges Duboeuf Beaujolais Blanc 2011 er hvítvín, nánar tiltekið Chardonnay.  Þrátt fyrir að Beaujolais sé í Búrgúndí, þá er þetta vín mjögólíkthvítvínum frá öðrum svæðum í Búrgúndí.  Eikarkeimurinn er ekki mjög áberandi, en þess í stað meira af eplum og möndlum, með smá blómailmi.  Vínið er létt og þægilegt í munni, endist þó ekki mjög lengi.  Fyrirtaks fordrykkur á góðu sumarkvöldi eða með léttu salati. Kostar 2.298 krónur.  Einkunn: 7,0
Georges Duboeuf Beaujolais 2011 – dæmigert rautt Beaujolais með áberandi jarðarberja- og hindberjakeim, smá pipar og vott af myntu.  Ekki mikil fylling í munni, sæmilegt jafnvægi en ekki mikið body.  Hindberjakeimur í frekar stuttu eftirbragði.  Fyrirtaks vín að sötra á meðan steikin er á grillinu.  Gengur líka vel með grilluðum kjúklingi.  Kostar aðeins 1.999 krónur.  Einkunn: 7,0
20131007-195348.jpg
Georges Duboeuf Fleurie 2012 – Þetta vín var aðeins of lokað en gaf þó af sér góðan ilm af brómberjum, plómum og ögn af anís.  Ágætis tannín og gott jafnvægi í þessu víni.  Gengur vel með ljósu fuglakjöti (ábending fyrir Thankgiving eða næstu kalkúnaveislu!).  Einkunn: 8,0.  Kostar aðeins 2.498 krónur.  2011-árgangurinn fékk 90 punkta hjá Wine Spectator…
Georges Duboeuf Saint-Amour 2012 – Líkt og Fleurie var þetta vín aðeins of lokað og hefði sennilega opnað sig betur með umhellingu.  Hindber og jarðarber áberandi, smá sveitalykt.  Létt tannín og hæfileg sýra með þeim.  Eftirbragðið þó aðeins í styttra lagi.  Ágætis fuglavín.  Kostar 2.749 krónur og þeim peningum er vel varið.  Einkunn: 8,0.
20131007-195430.jpg
Georges Duboeuf Moulin-á-Vent 2011 – Ljóst og létt vín, ilmur af hindberjum og brómberjum, léttkryddað.  Hæfileg tannín og létt sýra, góð fylling og eftirbragðið endist ágætlega.  Einkunn: 8,5.  Kostar aðeins 2.498 krónur og verður að teljast reyfarakaup.  Fær 90 punkta hjá Wine Spectator.
Georges Duboeuf Morgon Domain Jean Ernest Descombes 2012 – Þetta vín er nefnt eftir þekktum víngerðarmanni í Beaujolais.  Dæmigerður brómberja- og plómukeimur með fjólum og smá kryddi.  Enn í yngsta lagi en lofar góðu.  Einkunn: 8,5.
Fjölmargir vínáhugamenn lögðu leið sína í Perluna í kvöld til að kynnast betur þessum vínum. Til stendur að draga út nöfn nokkurra gesta sem munu hljóta glaðning frá Bakkusi.  Nöfn þeirra heppnu verða birt hér á Vínsíðunni.

Vinir á Facebook