Vínklúbbsfundur

Vínklúbburinn hittist um daginn og prófaði nokkur vín.  Þema kvöldsins var ítalskt (með smá afbrigði…)
Il Poggione Rosso di Montalcino 2009 var fallega rautt í glasi, sýndi byrjandi þroska en ekki mikla dýpt. Í nefinu var áberandi spírakeimur en einnig mátti finna negul, kirsuber, jarðarber og fjólur. Vínið var tannískt, með góða sýru en spírinn var samt nokkuð áberandi og vínið virkaði frekar beiskt í eftir bragðinu. Annað hvort ónýtt vín eða þá að það er bara ekki betra en þetta! Einkunn: 77-80(ónýtt?)
Concha y Toro Terrunyo 2008 var mjög dökkt að sjá (dæmigert Carmenere-útlit), miklir taumar í glasi níu, byrjandi þroski. Margslunginn ilmur með sveskjum, eik, brómberjum, lakkrís og mynta. Í munni má finna keim af apótekaralakkrís, dálítið lágstemmt vín, silkimjúkt og í góðu jafnvægi. Timjan og te í eftirbragðinu. Einkunn: 88-89
Benanti Rovittello Etna 2005 sýndi mikla dýpt og byrjandi þroska. Sætur nammi-ilmur, sveskjur og sulta (rifs?) ásamt vott af súkkulaði. Gríðarleg tannín og góð fylling en vantar þó sýru. Kryddaður sítruskeimur með góðan karakter. Skemmtilegt Sikileyjarvín úr óvenjulegri þrúgu (Nerello Mascalese). Einkunn: 85
Aglianico del Vulture Bisceglia Riserva 2001 var með fína dýpt og kominn góður þroski í vínið. Það var blómleg útihúsalykt með vanillu og lavender. Tannískt, beiskt og lítil fylling. Vínið er kannski komið yfir toppinn, jafnvel búið? Einkunn: 82

Að lokum bauð ég upp á Campogiovanni Brunello di Montalcino 2006. Það var með góða dýpt, kominn smá þroski. Vanilla, sólber og hvítur pipar áberandi í góðum ilmi. Í munni áberandi tannín en einnig góð sýra, berjabragð og vottar fyrir piparkökukeim (negulkeimur?). Einkunn: 90

Vinir á Facebook