Kassavínspistill

Loksins er sumarið á leiðinni! Sólin skín og hlýir vindar blása – a.m.k. hér í Uppsölum (mér skilst að það snjói enn á Íslandi!) – grilltímabilið er hafið og kassavínin birtast hér og þar.  Það er nokkuð langt síðan ég fjallaði síðast um kassavín og því kominn tími á pistil um þau.  Á sumrin er ég nær alltaf með einn hvítvínskút í ísskápnum því mér finnst mjög gott að fá mér eitt hvítvínsglas þegar ég er að grilla, og af hverju ekki eitt rauðvínsglas með grillmatnum?  Eins og greinlega hefur komið fram í undanförnum pistlum hef ég þó tekið nýja stefnu varðandi húsvínin mín – áður voru það kassavínin sem gegndu því hlutverki en nú er öldin önnur!
Sænska Systembolaget býður upp á rúmlega 100 rauðvínsbeljur og tæplega 80 hvítvínsbeljur (flest þeirra þarf þó að sérpanta).  Hjá ÁTVR er hægt að nálgast um 80 rauðvínsbeljur og 60 hvítvínsbeljur.  Það er því ærin vinna (og kostnaður) að ætla sér að prófa allt sem er í boði (og það hef ég sko ekki gert!). Hér eru samt nokkrar ábendingar um áhugaverð vín:
Rauðvín:

  • SomeZin – amerískur zinfandel sem Keizarinn prófaði um daginn og var nokkuð ánægður með.  Zinfandel, nema hvað.  Ávaxtaríkt vín með eik, súkkulaði og vanillukeim – fyrirtaks rauðvín sem óhætt er að mæla með. 215 SEK
  • Barone Ricasoli Formulae – kryddað og ávaxtaríkt, aðeins tannískt.  Þægilegt sumarvín. 219 SEK (ekki fáanlegt í ÁTVR).
  • Beringer Cabernet Sauvignon – gamli góði Beringer er nú einnig fáanlegur í belju, einnig á Íslandi.  Þetta er reyndar ekki alveg sami Beringer og maður var að kaupa í gamla daga (nú seldur undir nafninu Beringer Knights Valley) en gott vín engu að síður. 6649 ISK / 178 SEK (samkvæmt heimasíðunni en mig minnir að ég hafi borgað mun meira síðast þegar ég keypti það – þarf að athuga í næstu ferð!).
  • Drostdy Hof Cape Red – létt og þægilegt rauðvín frá Suður-Afríku, fyrirtaks grillvín. 5.299 ISK / 189 SEK.
  • JP Chenet Cabernet Syrah – fyrir þá sem vilja örlítið sætara rauðvín, 5.599 ISK / 179 SEK
  • Periquita – metsöluvínið í Svíþjóð. Sló strax í gegn og verið eitt mest selda rauðvínið undanfarin ár.  Kryddað með smá súkkulaðikeim. Portúgalskt vín úr þrúgunum Periquita, Trincadeira og Aragonez. 205 SEK.
  • Ramos Reserva – annar Portúgali sem Keizarinn (og ég líka) er hrifinn af, úr þrúgunum Trincadeira, Aragonez og Shiraz. Kryddað með berja- og lakkrískeim. 219 SEK.

Hvítvín:

  • Foot of Africa Chenin Blanc – vín sem hefur ratað inn í ísskápinn minn undanfarin sumur og aldrei valdið vonbrigðum.  Frísklegt með sítrus- og melónukeim.  Kostar ekki nema 169 SEK en þvi miður ekki til hjá ÁTVR.
  • Lindemans Chardonnay – annar gamall vinur sem sjaldan bregst.  Sítrus- og ávaxtakeimur, létt eikarbragð. 219 SEK / 6.849 (sem eru tæpar 380 SEK!!!)
  • Dr. Loosen Bros Riesling – enn eitt þægilega sumarvínið, þýskur riesling sem ekki bregst.  Loosen hefur verið að gera virkilega góð hvítvín að undanförnu og það eru góð kaup í þessari belju. 5.150  krónur!

Ég tek gjarnan við ábendingum um önnur góð kassavín!

Vinir á Facebook