Páskafrí – enn eitt húsvínið!

Þá er ég loksins kominn í páskafrí eftir langa og stranga vinnutörn.  Það spáir sól og tuttugu stiga hita hérna hjá okkur og ljóst að grillið verður vel kynt um helgina!  Ég tók mig til og keypti húsvín um daginn, og þar sem ég gat ekki alveg gert upp á milli Bolgarello og Campo Viejo þá keypti ég bæði vínin!  Mér fannst reyndar að ég þyrfti einnig að hafa hvítt húsvín en hafði reyndar ekkert kannað það nánar.  Ég fékk Wine Spectator í hús í vikunni og þar var girnileg uppskrift að grænum aspas og mælt með að drekka Grüner Veltliner með því.  Mér finnst Grüner Veltliner almennt vera nokkuð góð þannig að ég ákvað að fá mér eina svoleiðis.  Fyrir valinu varð vín frá hinum austrríska Leth.  Vínið kostaði aðeins 75 SEK og það er óhætt að segja að það eru feiknagóð kaup í þessu víni!  Ljósgult og fallegt vín með frískum keim af grænum eplum, lime og smá kiwi – smellpassar með grilluðum aspas!  Sænska tímiritið Allt om Vin gefur víninu 4 stjörnur af 5 og segir þetta vera hin bestu kaup, og ég get ekki annað en verið sammála þeim að þessu sinni.  Þó ég hafi ekki prófað aðra kandidata í hvíta húsvínið þá er líklegt að þetta vín verði fyrir valinu sem fyrsta hvíta húsvínið mitt.
Í gærkvöldi frétti ég svo frá mjög svo áreiðanlegum heimildum að Allesverloren Shiraz sé einstaklega gott núna og það fær kannski að fljóta með…

Vinir á Facebook