Sjóferðin

Í vikunni fór ég með vinnunni í siglingu til Álands.  Þetta var vinnuferð, fundahöld á daginn og djamm um kvöldið og í raun dálítið sérstök upplifun.  Álandseyjar eru, líkt og flestir væntanlega vita, eyjaklasi milli Svíþjóðar og Finnlands, tilheyrir Finnlandi en hafa ákveðna sjálfstjórn.  Þarna búa tæplega 30.000 manns sem flestir eru sænskumælandi.  Á milli Svíþjóðar og Álandseyja sigla svo margar stórar ferjur, en réttara er þó að tala um skemmtiferðaskip, flest af þeirri stærðargráðu sem heimsækja Ísland á sumrin.  Siglingin tekur einn sólarhring, og er siglt í gegnum hinn fallega skerjagarð Stokkhólms.  Svona sigling gæti þó með góðu móti tekið styttri tíma en hún þarf samt að taka svona langan tíma og skipin verða að leggja að bryggju á Álandseyjum til þess að farþegarnir geti verslað tollfrjálsan varning.  Svona ferð kostar lítinn pening, og gengur að mestu út á að farþegarnir kaupi nógu mikið af hinu ódýra áfengi sem selt er um borð – viðskiptaáætlun sem virðist ganga nokkuð vel því farþegarnir verða flestir ofurölvi (ég myndi ekki vilja sjá um ræstingarnar á svona skipi!).  En fyrst þetta var vinnuferð þá vorum við íslendingarnir auðvitað til fyrirmyndar og í mjög góðu standi um morguninn (ólíkt mörgum öðrum!).
Ég brá mér auðvitað í fríhöfnina og verslaði pínulítið.  Margt af því sem þarna stóð til boða kannaðist ég ekki við, en ég fann þó Torres Cabernet Sauvignon Mas La Plana 2006 og Pio Cesare Barbera d’Alba Fides 2007 – keypti tvær flöskur af hvorri tegund.  Nú verð ég að fara að drekka eitthvað af þessu því vínkælarnir mínir eru eiginlega orðnir fullir…

Vinir á Facebook