Frábær kaup!

Síðastliðna viku hef ég nánast verið rúmliggjandi með þursabit en er nú allur á batavegi.  Ég reyndi að nota tímann í eitthvað gagnlegt og kannaði m.a. stöðuna á sérpöntunarlistanum hjá systembolaget.  Nánar tiltekið var ég að athuga hvort að Brancaia Tre 2007 væri ekki örugglega komið til innflytjandans, Johan Lidby Vinhandel.  Þetta vín lenti nefnilega í 10. sæti á margnefndum topp 100-lista Wine Spectator og var eitt af fáum vínum sem var fáanlegt í Svíþjóð.  Samkvæmt systembolaget voru þeir þó enn með 2006-árganginn en á heimasíðu innflytjandans mátti þá lesa sem svo að 2007 væri komið í þeirra hillur.  Núna sagði systemið að 2007 væri fáanlegt þannig að ég ákvað að panta 4 flöskur, sem komu svo í hús á föstudag.  Þetta er ítalskt vín, nánar tiltekið Toscana-vín, og mér fannst því viðeigandi að drekka það með ítölskum mat.  Ég eldaði því feiknagott Lasagna og bauð Keizaranum í mat.  Við prófuðum svo eina flösku og það er óhætt að segja að við urðum ekki fyrir vonbrigðum!  Þetta er nokkuð ljóst vín að sjá, dæmigert Chianti-útlit.  Í nefið kemur kaffi- og berjailmur ásamt ögn af lakkrís og blómum.  Í munni dálítið tannískt en hins vegar mikil sýra, góð fylling og gott eftirbragð.  Frábært vín sem vakti mikla hrifningu meðal allra viðstaddra.  Vínið er blanda Sangiovese (80%), Cabernet Sauvignon (10%) og Merlot (10%), fellur undir IGT-flokkinn og gæti því tæknilega talist vera ofur-Toskani. Einkunn: 9,0 – Frábær Kaup!
Brancaia Tre

Ég stóðst ekki mátið og pantaði mér strax einn kassa til viðbótar, enda kostar vínið ekki nema 149 SEK og viðbúið að það klárist fljótt!

Vinir á Facebook