Uppskrift að góðu kvöldi

Eftir tæplega vikulanga fjarveru frá fjölskyldunni er efst á óskalistanum að eiga notalega kvöldstund í faðmi fjölskyldunnar. Við skruppum út í búð í dag og sáum þar hreindýrasteik sem við ákváðum að skella okkur á. Hún var kannski í dýrari kantinum en samt hverrar krónu virði, enda einstaklega góður biti sem við fengum á. Kjötið var skorið í hæfilega stórar steikur (u.þ.b. 100 g hver) og kryddað með salti, pipar og timjan. Það var síðan steikt upp úr smjöri í rúmar tvær mínútur á hvorri hlið. Í lok steikingar hellti ég smá púrtvíni (Churchill LBV 2002) út á og þannig mallaði kjötið í rúma mínútu. Sósan var gerð úr skógarsveppum, kjötsoði og bökuð upp á pönnunni eftir að kjötið hafði verið tekið af. Meðlætið var steikt grænmeti og kartöflur. Óhætt er að segja að þetta var ákaflega gott og allir borðuðu á sig gat! Þegar maður borðar slíkt lostæti er ekki hægt annað en að drekka eitthvað gott rauðvín með. Ég tók fram eina Tignanello 2006 (93 punktar í Wine Spectator)! Þetta er dökkt og fallegt vín með góða dýpt en auðvitað í það yngsta til að drekka núna. Í nefið koma fram rauð epli, lakkrís, plómur, pipar og dökkt súkkulaði. Í munni er það gríðarlega tannískt þrátt fyrir umhellinguna en hefur samt góða sýru á móti. Plómurnar koma vel fram í bragði og haldast fram í eftirbragðið sem er langt og gott. Frábært vín! Einkunn: 9,0- Góð kaup!
Púrtvínið var líka mjög gott – nokkuð sætur berjakeimur með góða fyllingu.  Dæmigerður Churchill!
lbl_IT_antinori_tignanello

Vinir á Facebook