Beaujolais Nouveau eða jólabjór?

Beaujolais Nouveau kom í hillurnar í síðustu viku. Ástæða þess að ég hef ekkert fjallað um það fyrr en nú er einfaldlega sú að ég er alveg búinn að missa áhugann á þessu sulli. Einu sinni var þetta spennandi og hypað á allan mögulegan hátt en mesti áhuginn hefur dvínað undanfarin ár. Beaujolais hefur svo sem ekki verið þekkt fyrir að framleiða nein stórkostleg vín, en Beaujolais villages-vín eru samt þokkaleg og Cru de Beaujolais geta verið nokkuð góð. Nouveau er hins vegar oft eins og áfengt hindberjasaft…
Það sem mér hefur þótt meira spennandi við þennan árstíma er að nú er jólabjórinn kominn í hillurnar.  Ég hef almennt verið hrifnari af ljósum bjór en fæ mér stundum dökkan.  Jólabjór er hins vegar nær undantekningarlaust dökkur og með góðu maltbragði – stundum nánast eins og maður sé að drekka Egils Malt nema að það er þá um 6% að styrkleika.
Í vínbúðum ÁTVR eru núna fáanlegar 11 ólíkar tegundir jólabjórs, þar af 2 erlendar.  Ég hef aðeins náð að smakka eina tegundina, hinn sænska Arboga Julebrygd.  Arboga er venjulega einn af mínum uppáhaldsbjórum en ég varð fyrir pínulitlum vonbrigðum með jólabjórinn.  Ekki það að hann sé neitt vondur – ég var bara að vonast eftir aðeins betri bjór!  Hann hefur auðvitað nokkuð sterkt maltbragð og sæmilega beiskju, smá rúgbrauðskeimur en það vantar eiginlega lokahnykkinn á að þetta sé frábær bjór.
Mariestads Export er líka einn af mínum uppáhaldsbjórum en Mariestads Julebrygd olli mér  vonbrigðum, og ég held að Keizarinn hafi verið svolítið vonsvikinn líka.  Bjórinn er mjög beiskur, þokkalegt maltbragð en beiskjan er eiginlega of yfirgnæfandi fyrir minn smekk.
Slottskällan er brugghúsið okkar í Uppsala og þeir eru með tvo jólabjóra í ár – Tomte julöl og Nisse julöl.  Tomte er örlítið beiskur, með áberandi humla ásamt vott af appelsínuberki og súkkulaði – góður jólabjór!  Nisse ætla ég að smakka í kvöld…

Vinir á Facebook