Gleymdi að panta!

Já, það er skömm frá að segja en ég hreinlega gleymdi að panta mér Bordeaux 2006 í síðustu viku!  Valið stóð helst á milli Talbot, Léoville-Barton og Chasse-Spleen en nú verð ég að bíða fram í lok næstu viku til að sjá hvort það sé eitthvað eftir handa mér.  Ég var reyndar orðinn pínu þreytt, enda búinn að vera á næturvöktum alla vikuna og var einmitt á leið í vinnuna þegar ég mundi eftir þessu, en svona er þetta nú bara.  Sem betur fer var þetta ekki annar 2005-árgangur – þá hefði maður jafnvel tekið frí frá vinnu til að ganga frá pöntuninni.
Ég fór þó í ríkið á föstudaginn og keypti mér Chateau Mont-Redon Chateauneuf-du-Pape 2005.  Þetta var ágætisvín, kannski örlítið daufara en ég hafði gert mér vonir um.  Líkt og mörg önnur Rónarvín er það að mestu leyti gert úr Grenache (65%), Syrah (15%) og Cinsault (10%), en nokkrar aðrar þrúgur hafa líka slæðst með.  Það hefur dálítið blautan eikarkeim, ber og lakkrís í annars dálítið fátæklegri lykt.  Í munni nokkuð gott jafnvægi þar sem áðurnefnd lyktar- og bragðelement koma ágætlega fram ásamt smávegis pipar.  Sæmilegt eftirbragð.  Einkunn: 6,5 – pínulítil vonbrigði með þetta vín þar sem ég borgaði 234 SEK fyrir það.
Ég keypti líka Ný-Sjálenskt rauðvín sem heitir Wild Rock Gravel Pit Red 2008, blanda Merlot og Malbec, og ég held örugglega að þetta sé í fyrsta sinn sem ég smakka slíka blöndu.  Þetta er unglegt vín að sjá, ilmur af eik, plómum, myntu og súkkulaði sem skila sér í bragðinu, sem er nokkuð tannískt og skortir aðeins upp á sýru til að vega upp á móti tannínunum.  Ágætis hversdagsvín og mun betri kaup en frakkinn sem ég fjallaði um hér að ofan.  Einkunn: 6,5 – kostar 99 SEK.

Vinir á Facebook