Setið við skriftir

Þessa vikuna er ég staddur í Falun, en hingað kem ég stundum til að vinna pínulítið (það vantar sérfræðinga í minni sérgrein, þannig að ég og aðrir kollegar frá Uppsala skiptumst á að koma hingað).  Þegar vinnudeginum er lokið er ósköp lítið hægt að gera af sér og ég reyni því að nýta tímann í ýmislegt annað, svo sem að skrifa vínbókina mína sem ég er að gera í tilefni 10 ára afmælis Vínsíðunnar.  Ég er núna búinn að skrifa nokkuð almenns eðlis og er svo búinn að gera Suður-Afríku, Frakklandi og Ítalíu nokkuð góð skil.  Þá er ég búinn að taka saman alla víndóma sem hafa birst á síðunni (finnst samt að það vanti ýmilegt þar – greinilegt að ég hef oft gleymt að skrifa um vín sem ég hef prófað!), og það stefnir því í að bókin verði yfir 100 síður!  Líklega verður hún ekki tilbúin fyrr en í haust og ég vona samt að hún komi á undan jólabókaflóðinu!
Annars fór ég á Ítalskan stað í gær, ásamt Einari Brekkan.  Við fengum okkur pizzur og sitt hvort glasið af Fontanafredda Langhe Nebbiolo 2006.  Fallegt og dökkt vín með ilm af plómum, leðri og lavender, kryddað í munni með góðri fyllingu og þokkalegu eftirbragði.  Ágætis vín.

Vinir á Facebook