Góður Beaujolais

Í gær prófaði ég Beaujolais-vín, nánar tiltekið George Duboeuf Morgon Cru Beaujolais 2006.  Ég hef lengi vel haldið mig frá þessum vínum, sennilega vegna Beaujolais Nouveau.  Það er auðvitað tóm vitleysa, því Cru Beaujolais á sko ekkert skylt við Nouveau.  Þetta er eins og að vilja ekki Opus One af því að maður er ekkert hrifin af Carlo Rossi California Red.  Cru Beaujolais er fínasti flokkur Beaujolais-vína og þau eru ekkert slor.  Flokkunin, skv. AOC-reglunum, er annars þessi (frá lægsta til hæsta flokks):

  • Beaujolais
  • Beaujolais supérieur
  • Beaujolais villages
  • Cru Beaujolais

Vínið sem við drukkum kemur sem sagt frá þorpinu Morgon, búið til af vínkaupmanninum George Duboeuf (hann ræktar ekki þrúgurnar sjálfur, heldur kaupir bæði þrúgur og tilbúin vín og notar til eigin framleiðslu).  Vínin frá Morgon hafa stundum dálítinn moldarkeim (í góðum skilningi þess orðs) en þetta vín hafði engan slíkan keim, heldur var það ríkt af ávöxtum, kryddum og grasi.  Í munni komu sömu áhrif fram, ásamt vott af tannínum og sýru.  Gott jafnvægi með þægilegu eftirbragði.  Góð kaup í víni sem kostar aðeins 89 SEK.  Því miður fæst ekkert Cru Beaujolais á Íslandi, heldur aðeins venjulegt Beaujolais.
Ég grillaði svínasteik og vínið smellpassaði með henni.  Einkunn: 7,5 – Góð Kaup!

Vinir á Facebook