Kreppuvín

Í janúar skrifaði ég pistil um kreppuvín með kreppubolta. Mér fannst þetta frekar sniðugt hugtak en bjóst samt ekki við að það myndi ná að festast jafn vel í sessi og það virðist hafa gert.
Ég kíki nefnilega reglulega inn á önnur vínblogg, einkum www.smakkarinn.is og vinogmatur.wordpress.com, sem ásamt Vínsíðunni eru virkustu íslensku vínbloggin.  Stefán Guðjónsson, sem ritstýrir Smakkaranum er vínþjónn og tvímælalaust einn fremsti vínsérfræðingur Íslands.  Á bak við hitt vínbloggið er Vín og matur, sem er lítið fyrirtæki sem flytur inn vín á borð við d’Arenberg, Sine Qua Non og Umano Ronchi.  Við lestur þessara vínblogga hef ég tekið eftir því að þau eru líka farin að tala um kreppuvín, og Stefán er meira að segja með síðu tileinkuðum kreppuvínum.  Nýlega fjallaði hann um þrjú vín frá Arthur Metz, þar af einn Gewurztraminer sem hann valdi sem vín mánaðarins, en einnig Riesling og Pinot gris sem hann kallar kreppuvín.
Skilgreining mín á kreppuvínum eru góð og ódýr vín sem maður hefði kannski litið fram hjá á velmegunarárum (það er kannski hálf  kjánalegt að hugsa svona, en samt…).
Ég ætla að kíkja í vínbúðina mína á eftir og finna mér tvö góð kreppuvín, hvítt og rautt, finna svo eitthvað gott á grillið því það er spáð allt að 30 stiga hita um helgina!

Vinir á Facebook