Casa Lapostolle

Í gær grillaði ég maískólfa og brasilíska nautalund, meðlætið kartöflur, bernaisesósa og salat. Með þessu drukkum við Casa Lapostolle Cuvée Alexandre Pinot Noir 2005.  Vínið er frá Casablanca-héraði í Chile og framleiðandinn Casa Lapostolle skaust nýlega upp á stjörnuhimin vínheimsins þegar Casa Lapostolle Clos Apalta 2005 var útnefnt sem vín ársins 2008 hjá Wine Spectator.
Þegar hellti í glasið sá ég að vínið var dekkra en pinot noir eru venjulega.  Hefði þetta verið blindsmökkun hefði ég sennilega aldrei giskað á chileanskan pinot því lyktin minnti mig meira á shiraz og carmenére!  Plómur, leður, pipar og smá kirsuber sem mögnuðust upp við þyrlun.  Í munni er vínið fyrst mjúkt en þétt með góða fyllingu, en svo springur vínið út og verður mjög kröftugt en með löngu og mjúku eftirbragði.
Vínið er framleitt í mjög litlu magni, aðeins 459 kassar framleiddir og ég reikna varla með að komast yfir aðra flösku af þessu frábæra víni.  Hér virðist vera toppframleiðandi á ferð og ástæða til að kippa með sér flösku ef maður rekst á vín frá þessum framleiðanda!
Keizarinn, sem var með okkur í gær, tók með sér flösku af hinu frábæra Seghesio Zinfandel 2007 – frábært vín sem tvímælalaust eru ein bestu kaupin í systeminu í dag!
Casa Lapostolle Pinot Noir 2005

Vinir á Facebook