Pio Cesare Langhe Nebbiolo 2005

Í gær var ljóst að vorið er komið hér í Uppsölum – glampandi sól og 15 stiga hiti.  Það eina sem skyggði á var að Guðfinna er lasin.  Við ákváðum samt að gera okkur góðan dag og keyptum flotta nautalund.  Lundin var marineruð í smá stund með hvítlauk, fersku timjan, salti og pipar áður en hún fór á grillið í heilu lagi.  Meðlætið var villisveppasósa (villisveppir steiktir, soðið í rjóma og bragðbætt með kjötkrafti, salt og pipar), salat og kartöflur.  Með þessu drukkum við Pio Cesare Langhe Nebbiolo 2005 sem ég rakst á í Systeminu.  Það er nokkuð ljóst á lit, unglegt en með þokkalega dýpt.  Nokkuð eikuð lykt með rúsínum, fjólum, kirsuberjum og kryddjurtum.  Í munni sömu tónar með vott af útihúsum og smá salvíukeimur.  Gott eftirbragð.  Mjög gott vín fyrir aðeins 119 SEK.
Fleiri athuganir munu væntanlega eiga sér stað um helgina, enda spáð sama veðri alla páskana.
Vínsíðan óskar lesendum gleðilegra páska og Keizarinn fær afmæliskveðju!

Vinir á Facebook