Kvöldið góða

Síðastliðið laugardagskvöld var „opnaðu flöskuna“-kvöldið – tilefni handa þeim sem hafa beðið eftir rétta tækifærinu til að opna flöskuna góðu sem legið hefur í kælinum, en aldrei verið opnuð þar sem tilefnið hefur látið á sér standa.  Ég hef átt eina góða – Tenuta dell’Ornellaia Bolgheri Superiore Ornellaia 2002 – sem ég fékk fyrir nokkru síðan og lengi langað.  Ég ákvað því að halda slíkt kvöld og bauð Keizaranum í hreindýrasteik.  Hann tók með sér Rosemount Traditional 2005.
Hreindýrið var með þreföldum piparhjúp og timjan, meðlætið innbakað rótarávextir og maltsósa.  Þetta tókst auðvitað frábærlega vel upp og Ornellaian smellpassaði með þessu, og Rosemountinn var líka góður.  Á eftir fengum við okkur eplaköku á hvolfi og með henni drukkum við Lenz Moser Trockenbeerenauslese 2006 frá Austurríki.
Ornellaian var mögnuð – dökkt og fallegt í Riedelglösunum, mikil dýpt og kominn smá þroski í vínið.  Upp úr glasinu svifu plómur, fjólur og pipar ásamt ögn af ristuðum hnetum.  Gott jafnvægi, mikil fylling og langt, langt eftirbragð.  Frábært vín!
Rosemount Traditional var góð – dökkt með byrjandi þroska, góð dýpt.  Berjakeimur ásamt lakkrís og amerískri eik.  Gott jafnvægi, talsverð tannín, gott eftirbragð.  Mjög gott vín fyrir tiltölulega lítinn pening.
Lenz Moser – sætt vín frá Austurríki, gullið og fallegt í glasi.  Hunang, apríkósur og smá ananas sem skilar sér meira í bragðinu sem er frísklegt og gott.  Gott eftirbragð.  Góð kaup.
Mjög gott kvöld með frábærum mat og frábærum vínum.

Vinir á Facebook