Vín og ostar á Valentínusardegi?

Margir vilja gera sér dagamun á Valentínusardegi, degi elskenda.  Með góðum mat skal að sjálfsögðu fylgja gott vín, en hvað um eftirréttinn?  Hvað um vín og osta?  Jú, auðvitað er alltaf gott að fá sér vín og osta, en þá skiptir líka máli að velja saman vínin og ostana, ekki bara að kaupa nokkra góða osta og eitthvað vín – röng samsetning getur skemmt ánægjuna af bæði ostunum og víninu.  Hér eru nokkrar heppilegar samsetningar:

  • Mjúkir ostar (hvítmygluostar á borð við Brie, Camembert) – ostar með mikla fyllingu sem nánast klæða munninn að innan og geta gert rauðvín þunn og óspennandi.  Hér hæfir betur að drekka Kampavín (eða önnur freyðivín) eða hálfþurr og skörp hvítvín á borð við þýsk eða austurrísk Rieslingvín.
  • Blámygluostar (Gorgonzola, Gráðaostur, Roquefort, Stilton) – myglubragðið fer ekki vel með þurr hvítvín og rauðvín eiga líka erfitt uppdráttar.  Sætvín passa vel með þessum ostum, t.d. Sauternes með Roquefort og Gráðaosti, eða púrtvín með Stilton.  Sauternesvín hafa stundum smá hnetukeim og það á einstaklega vel við blámygluostana.
  • Harðir ostar (Cheddar, Parmigiano-Reggiano, Emmental, Gruyére) – þessir ostar passa betur með rauðvíni og hvítvíni en mjúku ostarnir.  Þeir geta því vel gengið með góðu rauðvíni, t.d. með því sem eftir er af rauðvíninu sem borið var fram með aðalréttinum!
  • Geitaostar (Pecorino Romano, Manchego) – ungir geitaostar nánast hrópa á snörp, ung hvítvín, s.s. Sauvignon Blanc frá Sancerre, Pouilly-Fumé eða Nýja-Sjálandi.  Chablis getur líka gengið vel.  Harðari og þroskaðri ostar á borð við Pecorino myndu falla vel með ungum, líflegum rauðvínum á borð við Zinfandel frá Kaliforníu eða Sangiovese frá Toscana.

Vinir á Facebook