Veislan góða

Á fimmtudaginn komst ég í nokkuð óvenjulega veislu. Boðið var upp á innmat að hætti kolleganna. Aðalrétturinn var steikt dádýralifur sem borin var fram með hjarta- og nýrnasósu ásamt innbökuðum rótarávöxtum. Ég var svolítið skeptískur fyrir því að hingað til hef ég ekki verið mikið fyrir slíkan mat. Mér er reyndar enn í fersku minni er móðir mín reyndi að fá mig til að borða lifur þegar ég var lítinn en hún gafst svo loks upp á því þegar ég skilaði matnum yfir matarborðið.
Þessi lifur var þó allt öðru vísi! Ég geng svo langt að segja að allt hafi verið hreinasta lostæti!
Það sem var þó hápunkturinn í veislunni (a.m.k. að mínu mati) var vínsmökkunin á undan. Fengnir voru tveir vínþjónar (sommelier) sem kynntu vínin sem smökkuð voru og þau voru sko ekki af verri endanum:

  • Chateau Antonic 2005
  • Chateau Lagrange 1989
  • Torres Mas La Plana 2003
  • Montes Purple Angel 2004

Meira að segja vínþjónarnir fengu vatn í munninn og voru mjög spenntar að fá að prófa þessi vín, því þær höfðu aðeins prófað Mas La Plana af  því sem í boði var.
Eftirrétturinn var svo Tira Mi Su að hætti Árdísar, sem er óumdeildur sérfræðingur í þessum rétti!

Vinir á Facebook