Eru WS-verðlaunin bara sölubrella?

Á hverju ári veitir Wine Spectator viðurkenningu til veitingahúsa sem státa af góðum vínlista. Hingað til hefur þetta þótt góð viðurkenning og m.a. hefur Fjalakötturinn fengið „Award of Excellence“ s.l. 2 ár.
En er eitthvað að marka þessi verðlaun? Það hef ég haldið, a.m.k. hingað til. Í morgun sá ég þó bloggfærslu þess efnis að veitingahús eitt í Milanó hefði hlotið sömu verðlaun. Kannski ekki í frásögur færandi nema að því leyti að veitingahúsið er ekki til og hefur aldrei verið til nema á Netinu! Blaðamaður einn í Kaliforníu ákvað að gera smá tilraun. Hann bjó til vínlista og matseðil, setti upp einfalda vínsíðu og varð sér úti um síma- og faxnúmer í Milanó. Hann skrifaði um veitingastaðinn á matarvefsíðu og fleiri staði til þess að hægt væri að finna veitingahúsið á Google. Síðan tilkynnti hann veitingastaðinn til Wine Spectator og greiddi uppsett gjald ($250) til þess að reyna að komast á áðurnefndan lista. Hann fékk síðan staðfestingu frá tímaritinu að veitingahús hans hefði hlotið viðurkenningu og söludeildin hafði samband til að reyna að fá hann til að kaupa auglýsingu í tímaritið þegar listinn yfir viðurkennd veitingahús myndi birtast. Slík auglýsing kostar $3.000 – $8.000.
Vínlistinn innihélt u.þ.b. 250 vín, sum hver nokkuð góð en flest vínin voru ódýrt sull. Á „fína listanum“ (dýra listanum) voru vín sem Wine Spectator hafði dæmt sem ódrekkandi eða þaðan af verra!
Wine Spectator reyndi eitthvað að malda í móinn þegar blaðamaðurinn svo tilkynnti tímaritinu um að staðurinn væri bara blöff, sagði að helmingur vínanna á vínlistanum (sem var tilbúningur einn) hefði fengið 80 eða hærra í einkunn, á meðan yfir 80% allra vína sem WS gagnrýnir fá 80 eða hærra í einkunn!
Blaðamaðurinn heldur því fram að þessi listi sé aðeins sölubrella og algjörlega marklaus. Yfir 3.000 veitingahús voru á listanum sem birtur er í ágúst á hverju ári. Hvert þeirra hefur borgað 250 dollara til tímaritsins sem fær því a.m.k. 750.000 dollara í þóknun frá veitingahúsunum, og þá eru ekki talin með þau veitingahús sem ekki komast á listann (kannski komast allir á listann?).
Umhugsunarvert að mínu mati.

Vinir á Facebook